Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verslanir opnaðar á ný í Ósló

05.05.2021 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Slakað verður á sóttvörnum í Ósló frá og með morgundeginum. Heimilt verður að opna verslanir og verslanamiðstöðvar að nýju og börn og unglingar fá að æfa íþróttir utan dyra.

Þetta kom fram á fundi borgaryfirvalda með fréttamönnum í dag. Forseti borgarstjórnar sagði að COVID-19 smitum hefði fækkað umtalsvert frá því þau náðu hámarki um miðjan mars og einnig innlögnum á sjúkrahús. Vissast væri þó að fara að öllu með gát til að missa ekki faraldurinn úr böndunum á ný.

Verslanir og verslanamiðstöðvar verða því opnaðar að nýju frá morgundeginum. Takmarkanir verða á fjölda viðskiptavina, þannig að hver og einn á að hafa fjóra fermetra til að athafna sig. Starfsfólk verslanamiðstöðva þarf að gæta þess að hópar safnist þar ekki saman. Þá verður fólki óheimilt að borða mat sem það hefur keypt á veitingastöðum. Þá verður börnum og ungmennum heimilt að æfa íþróttir utan dyra.

Enn frekari tilslakanir standa til í þessum mánuði, sem borgaryfirvöld ætla að kynna að hálfum mánuði liðnum. Búist er við að einnig verði slakað á sóttvörnum í nágrannasveitarfélögum Óslóar. Yfirvöld í Lillestrøm hafa þegar tilkynnt að þar verði verslanir opnaðar á morgun.

Búið er að bólusetja rúmlega 187 þúsund íbúa Óslóar, þar af 49 þúsund tvisvar. Í nokkrum borgarhlutum er byrjað að bólusetja fólk í níunda hópi, á aldrinum 45 til 54 ára.