Varla viðræðuhæf út af fjöllunum

Mynd: Steinrún Ótta Stefánsdóttir / Aðsend

Varla viðræðuhæf út af fjöllunum

05.05.2021 - 14:42

Höfundar

Grafíski hönnuðurinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir er nýlega flutt aftur á æskuslóðir sínar á Egilsstöðum. Þar rekur hún lítið hönnurarstúdíó þar sem hún hannar og selur eigin vörur. Fjöllin eru áberandi í verkum hennar og þau sækja fast á hana. „Og ég er orðin pínu heilaþvegin því að ég horfi svo stíft á fjöllin þegar ég er að keyra, að ég er varla viðræðuhæf,“ segir hún kímin.  

Heiðdís segist upplifa fjöllin sem ákveðinn fasta. Hún tekur sem dæmi Snæfellið, enda er hún fædd og uppalin á Egilsstöðum og hefur horft á fjallið alla sína æsku. „Fyrir mér er það táknmynd fjölskyldunnar og stöðugleika,“ segir hún. 

Hún finnur líka hvernig fjöllin hafa fylgt henni og tengjast ákveðnum tímabilum í lífi hennar. „Til dæmist þegar ég bjó í Vesturbænum og var í háskólanum, að þá horfði ég á Keili. Og maður fór að skokka niðri við sjó og þar var Keilir. Þannig að Keilir fyrir mér er tímabilið þegar ég bjó í Reykjavík. Og svo er það Kaldbakurinn og Súlurnar þegar ég bjó á Akureyri. Þannig að það er eitthvað við fjöllin sem staðsetur mann.“

Mynd með færslu
 Mynd: East.is
Snæfellið er hæsta fjall Íslands utan jökla. Fyrir Heiðdísi er það táknmynd fjölskyldunnar og stöðugleika.

Rætt var við Heiðdísi Höllu í þættinum Sögum af landi á Rás 1, þætti þar sem flakkað er um landið og rætt við fólk um líf þeirra og hugðarefni. Þáttinn má hlusta á hér: 

Herðubreið á sérstakan stað í hjartanu

Á vinnustofu Heiðdísar blasa við tvö verk sem hengd eru upp hlið við hlið. Annað þeirra er Snæfellið en á hinu verkinu er Herðubreið í aðalhlutverki, sem kölluð hefur verið drottning íslenskra fjalla. Heiðdís segir Herðubreiðina henni mjög hjartfólgna.

„Þegar ég var unglingur þá fór ég norður til Akureyrar í menntaskóla, á heimavist, og þá byrjuðu ferðir mínar á milli Egilsstaða og Akureyrar. Og ég hef keyrt svona milljón sinnum þarna fram hjá. Og í hvert einasta sinn getur maður dáðst að þessu fjalli sem stendur þarna eitt út í auðninni og gnæfir yfir allt. Og er aldrei eins. Hún er bara eitthvað svo voldug yfir hálendinu og hún á sér sérstakan stað í hjartanu, eða maganum,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Herðubreið, drottning íslenskra fjalla.
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fjallið Keilir minnir Heiðdísi alltaf á tíma sinn við Háskóla Íslands þar sem hún lærði frönsku.

Fjöllin í maganum

Það er einmitt umræðan um fjöllin í maganum sem var ástæða þess að þáttastjórnandi Sagna af landi kom við á vinnustofu Heiðdísar. Heiðdís hafði skrifað stutta hugleiðingu um fjöll á vefsíðu sína en kveikjan að færslunni var útvarpsþátturinn Fjöllin hafa vakað sem fluttur var á Rás 1 fyrir skemmstu. 

„Í þeim þætti var fjallað um fjöllin og hvernig við horfum á fjöllin og hvernig fjöllin hafa merkingu fyrir okkur, sem gæti meira að segja verið breytileg eftir tímabilum. Og ég tengdi bara svo sterkt við þetta,“ segir hún. „Og ég var í rauninni að skrifa um það og út frá mér hvernig, sem Íslendingur, fjöllin eru í maganum á manni, eins og sagt var í þættinum, og ég tengdi svo sterkt við það.“

Rætt var við Heiðdísi Höllu Bjarnadóttur í Sögum af landi á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér að ofan. Þar segir Heiðdís nánar frá ferli sínum sem hönnuður, dvöl sinni í París og þegar hún flytur loks til Akureyrar og gerist frönskukennari í sínum gamla menntaskóla.