Stæla líkamann og næra andann á fjöllum

Mynd: Menningin / RÚV

Stæla líkamann og næra andann á fjöllum

05.05.2021 - 09:28

Höfundar

Ljóðaupplestur á fjallstindi við dagrenningu hljómar ef til vill eins og hástemmdur draumur en er það ekki þessa vikuna því slíkar stundir eiga sér stað daglega á nágrannafjöllum Reykjavíkur á vegum Ferðafélags Íslands. 

Lagt er af stað klukkan 6 á morgni hverjum og í ár var í fyrsta sinn tilnefnt sérstakt Fjallaskáld morgungangnanna. Anton Helgi Jónsson hlaut þann heiður og flytur ljóð við upphaf hverrar göngu og þegar toppnum er náð. „Ég legg upp með stuttar hugleiðingar kringum gönguferðir, útiveru og náttúru og kannski verður þarna eitthvað sem maður geta hugsað um á leiðinni,“ segir hann. 

Fóðra sálina

Morgungöngur Ferðafélagsins Íslands hafa verið farnar frá árinu 2005. Að sögn Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, leiðsögumanns liggur ljóðræna gjarnan yfir vötnum þegar fjallgöngur eru annars vegar. „Við höfum lengi haft fyrir sið að lesa ljóð á fjallatoppum vegna þess að við vitum að þó að það sé nauðsynlegt að stæla líkamann er líka nauðsynlegt að næra andann. Fram að þessu höfum við stuðst við framlag áhugamanna úr röðum Ferðafélagsmanna sem hafa lesið ljóð handahófskennt út í loftið en nú ákváðum við að leita til fagmanna. Fyrsta Fjallaskáld Ferðafélags Íslands er Anton Helgi Jónsson sem fóðrar sál okkar í upphafi göngu og eins uppi á fjallatindunum.“

Hvergi betra að njóta

Aðspurður segir Páll Ásgeir kjörið að njóta ljóða undir berum himni. „Ég held að maður geri það vegna þess hérna úti í náttúrunni erum við í okkar náttúrulega umhverfi og hérna erum við eins og við eigum að okkur að vera, engin tilgerð og þess vegna opnast brautirnar inn í sálina.“

Þrjár göngur eru eftir þessa vikuna og eru sem fyrr segir ókeypis og öllum opnar. Nánari upplýsingar má finna hér. 

 

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Konurnar náðu á Kvennadalshnjúk og eru á niðurleið

Bókmenntir

Fær fleiri lesendur í gegnum vefinn en bækur

Bókmenntir

Nútímaleg ljóð frá gamalli kempu í fantaformi

Fimm skemmtilegar gönguleiðir fyrir byrjendur