Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óttast faraldur við Everest

05.05.2021 - 04:16
Erlent · Heilbrigðismál · Asía · COVID-19 · Everest · Nepal
epa05996942 (20/23) Tents stand in the Everest Base Camp of the mountaineers in Nepal, 07 April 2017. Hungarian climbers David Klein and Szilard Suhajda, members of the Hungarian Everest Expedition, stayed in the base camp as they prepared to reach the 8
Búðir fjallgöngumanna. Mynd: EPA - MTI
Kórónuveirufaraldurinn virðist bókstaflega hafa náð nýjum hæðum því fjallgöngugarpar við grunnbúðir Everest í Nepal segja fjölda tilfella hafa greinst þar undanfarna daga. Þeir óttast smitbylgju í grunnbúðunum að sögn fréttastofu BBC. 

Starfsmenn grunnbúðanna segjast hafa fengið staðfestingu á 17 smitum frá sjúkrahúsum í Katmandú, höfuðborg Nepals. Veikir göngugarpar eru sendir þangað úr grunnbúðum og ofar úr Everest ef þeir þurfa aðhlynningu. Ríkisstjórnin í Nepal þvertekur fyrir fregnirnar. Að sögn BBC valda þau viðbrögð stjórnvalda áhyggjum yfir því að þau séu að reyna að gera lítið úr stöðunni til að forðast að þurfa að loka á gönguferðir upp fjallið.

Ferðir erlendra fjallgöngugarpa upp Everest eru ein helsta tekjulind nepölsku stjórnarinnar. Hún varð af miklum tekjum í fyrra þegar loka varð fyrir aðgang að fjallinu vegna faraldursins. Síðustu vikur hefur tilfellum farið fjölgandi í Nepal.

Björgunarsamband Nepals, sem sér um heilsugæslu stjórnvalda við grunnbúðirnar, sögðu BBC að 17 sýni úr fólki sem sent var á sjúkrahús í Katmandú hafi reynst jákvæð. Læknir í grunnbúðunum segir að þeim fjölgi stöðugt sem sýni einkenni kórónaveirunnar. 

Bæði fjallgöngufólk og starfsfólk við grunnbúðirnar segja bagalegt að ekki sé aðstaða til sýnatöku þar. Læknirinn Prakash Kharel segir stjórnvöld ekki hafa veitt leyfi fyrir því. Stærstu hóparnir hafa brugðið á það ráð að mæta með eigin sýnatökubúnað. Það hefur hjálpað þeim við að koma fólki tímanlega í einangrun eða til aðhlynningar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV