Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Of algengt að fólk sé með einnota grill í Heiðmörk

05.05.2021 - 07:36
Mynd: Freyr Arnarsson / RÚV
Sævar Hreiðarsson, skógarvörður í Heiðmörk, segir að skógarverðir hafi verið á ferðinni rétt áður en eldurinn braust út. Eldurinn hafi breitt hratt úr sér yfir um fimm hektara svæði.

„Það er bara sorglegt að starfsmenn okkar skyldu ekki reka augun í þetta. Þeir hafa bara verið hálftíma, klukkutíma, áður en þetta gerist,“ segir Sævar.

Heiðmörk er mikið útivistarsvæði og íbúar á suðvesturhorni landsins nýta sér hana óspart til útivistar og útiveru. 

„Og því miður eru einhverjir að nota þessi einnota grill eða eru að reykja og passa sig ekki. Nú er þetta allt mjög þurrt og mjög auðvelt að kvikna í, það er mikill eldsmatur núna,“ segir Sævar.

Svæðið hefur verið vaktað sérstaklega seinustu ár vegna yfirvofandi skógarelda.

„En þetta er svo stórt svæði og það er erfitt fyrir okkur að fylgjast með, og þetta gerist mjög snöggt. Við höfum náð að stoppa svona elda í fæðingu. Slökkviliðið fyrir tveimur árum náði að hjálpa okkur með eitthvað. Það hafa komið smáeldar en sem betur fer ekki eins og þetta áður,“ segir Sævar.