Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða

05.05.2021 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap bankans 1,4 milljarði. Eigið fé bankans nam 185 milljörðum í lok mars. 

„Fjárhagsstaða bankans er áfram sterk og undirstöður traustar. Efnahagsreikningur bankans er traustur með eigin- og lausafjárhlutföll vel yfir innri markmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Fjárhagsleg markmið bankans hafa verið uppfærð með það að markmiði að gefa skýrari mynd af þróun og áherslum í stefnu bankans,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í tilkynningu bankans til Kauphallar..

Útlán til viðskiptavina jukust um 2,3% á fjórðungnum en þar vegur þyngst aukning húsnæðislána. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 19 milljarða frá áramótum, eða um 2,8 prósentustig.

Fjármálaráðherra stefnir að því að hefja söluferli á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka í júní og segir Birna í tilkynningu að spennandi tímar séu fram undan hjá bankanum.