Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Franskur glimmergalsi valhoppar inn í sólsetrið

Mynd: - / La femme

Franskur glimmergalsi valhoppar inn í sólsetrið

05.05.2021 - 14:12

Höfundar

Franska listapönksveitin La Femme gaf út sína þriðju breiðskífu Paradigmes á dögunum en þau slógu í gegn með sinni fyrstu plötu Psycho Tropical Berlin árið 2013. Á Paradigmes hræra La Femme saman súrkálsrokki, nýbylgjustraumum, hugvíkkandi pönki og brimbrettapoppi saman á einstaklega skapandi og dillvænlegan hátt, segir Davíð Roach Gunnarsson tónlistarrýnir.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

La Femme var stofnuð í franska strandbænum Biarritz af gítarleikaranum Sacha Got og hljómborðsleikaranum Marlon Magneét árið 2010. Þeir bættu svo óðar við sig liðsfólki til að sjá um bassa, trommur og ýmislegt þar til sveitin taldi níu manns og gaf út sína fyrstu EP-plötu í lok árs 2010. Þau þróuðu svo hljóminn með fleiri þröng- og smáskífum fram að sinni fyrstu stóru plötu sem kom út á því herrans vori 2013. Hún hét því lýsandi nafni Psycho Tropical Berlin og umslagið var klippimynd af hálfberri konu með dauð augu, blóðrautt sólsetur og Art Deco-skýjakljúfar í bakgrunni, fiðrildum og skræpóttum litum sáldrað fjálglega yfir allt heila klabbið.

 

Strax á upphafssekúndum fyrsta lags var ljóst að hér eitthvað óvenjulegt á ferð, pönkaður bassagangur, diskótaktur og draugalegir þeramínhljómar á sveimi, áður en útúrsörfað gítarplokk byrjar að tæta sig í gegnum lagið. Menn og konur syngja og æpa sönglínur sem þú skilur ekki á vitsmunalegu leveli en franski kynþokkinn er alltumlykjandi og ærandi. Þrátt fyrir galsafengin gatnamót mismunandi tónlistarstefna sem koma saman er það pumpandi tempóið sem bindur þær saman, þú ert allan tímann kinkandi kollinum hart og stappandi fætinum í takt við þá jarðtengingu sem hendi er næst.

Sólbrenndur og sörfaður hetjugítar

Grunnurinn að þriðja laginu sem er samnefnt sveitinni er dularfullt spæjarafönk; taugaveikluð bassalína í bland við sólbrenndan áslátt frá karabíska hafinu, uggandi synþahljómar og rívörbaður brimhetjugítar í anda Shadows og Link Wray. En söngstíllinn er svo mjög í stúf við allt þetta, og minnir á franskt stelpupopp sjöunda áratugarins sem var kallað yeye. Annars er platan iðandi af lífi og valhoppandi og í handahlaupum yfir allt tónlistarkortið, allt frá hægum ambíent-vignettum án söngs og ásláttar yfir í húrrandi klúbbatempóið í Sur La Planche.

Þetta er kokteill sem ætti ekki að ganga upp á pappír en það er einhver franskur galsi sem heldur honum saman, það er einfaldlega ekki hægt annað en að hafa gaman að, og taka hatt sinn ofan fyrir barþjóninum; ástríðunni og listfenginu þegar hann kastar upp flöskum, hellir af nákvæmni og hristir sig nautnalega við framleiðsluna. Það er pönkaða attitjúdið, hetjulegi sörf-gítarinn, draugalega þeramínið og stelpulegi yéyé-söngstíllinn sem eru helsta límið sem bindur plötuna saman en svo eru svo margir útúrdúrar; þau leggjast til dæmis í Velvet Underground-legt morfínmók í laginu It’s Time To Wake 

La Femme sóttu Ísland heim árið 2014 og léku í Silfurbergi á Iceland Airwaves-hátíðinni á tónleikum sem mikið var látið með, til að mynda sagði Gunnar Dofri Ólafsson blaðamaður Morgunblaðsins: “Sal­ur­inn var al­gjör­lega til­bú­inn fyr­ir stór­skrýtið franskt sæka­del­íu­popp. Á tíma­bili átti ég líf mitt fer­köntuðum verk­fræðing­um að launa, sem hafa greini­lega gert ráð fyr­ir því að gólfið í Silf­ur­bergi þyrfti að gera dúað í takt við ör­ugg­lega um 1.000 manns sem dönsuðu eins og eng­inn væri föstu­dags­morg­un­inn.” 

Meiri fágun og fullorðins

Mér þótti ekki mikið til annarar plötu La Femme koma en nú í byrjun apríl, næstum átta árum eftir frumburðinn, kom út platan Paradigmes, og þar finnst mér La Femme vera komin aftur í gamla formið, þó þau endurtaki alls ekki nákvæmlega sömu æfingarnar.

Eitt af því sem er nýtt hér og heyrist strax hér í fyrsta laginu á samnefndu plötunni, eru áberandi brass-útsetningar og tilraunir með raddbreytieffekta. Eitthvað af pönkaða ungæðishættinum hefur kannski rjátlað af sveitinni, og rívörbaði brimbrettagítarinn er ekki í jafnstóru hlutverki og áður, en það kemur ekki að sök. Því í stað þess að hljómæfingum og stílstökkum sveitarinnar sé haldið saman að karismatísku handafli eins og á fyrstu skífunni þá er hljóðvinnsla og samsetning mýkri og fágaðari hér en áður, og það sést minna í saumana.

Stundum fer sveitin út í næstum hreinræktað rafpopp með mjög góðum árangri eins og Nouvelle Orléans og í Pasadena er lítið um söng heldur mestan part talað yfir hæglátt grúv, eitthvað sem fallegt tungumál eins og franska kemst auðveldlega upp með. Í Lacher che devaux klæða La Femme sig svo í glimmersamfestinga áður en þau hoppa upp á hestbak og ríða í áttina að sólsetrinu, í instrumental-lagi sem hljómar eins og blanda af rafrænu diskói Giorgio Moroder og ódauðlegri spagettívestraepík Ennio Morricones. 

Í Disconnexion bæta þau redneck-banjóleik og óperusöng ofan í drífandi rafpopptakta og Foreigner er fínasta Daft Punk-stæling þar sem La Femme-liðar þjösnast á raddbreytiforritunum sínum. Eitt sterkasta lagið á seinni hluta plötunnar er Divine Creature, drungaleg elektrókeyrsla með hvíslandi sexí kvenröddum sem bætir í með massívum rafgíturum og þungarokksriffum undir lokin. Le Jardin er valíum-maríneruð og Nico-leg 60’s síkadelíuballaða og Va er léttfönkuð æfing í tónskölum frá Miðausturlöndum. Lokalagið Tu T’en Lasses er svo sjö mínútna notalegt Velvet Underground-hjakk með dópuðum sólóum og lullandi hægu tempói, fullkomið til að sóna út við.

Paradigmes er stórskemmtilegt bræðingsverk, og í takt við titil fyrstu plötu La Femme, Pscyco Tropical Berlin, væri hægt að nefna þessa eitthvað eins og Psyco Moroder Tropical Underground Morricone Ibiza. Ef þessu sumri verður ekki kanselað út af Covid eins og því síðasta sé ég fyrir mér ótal grillveislur, kubbamót í hljómskálagarðinum, subbulega skemmtistaðasleiki og vafasöm eftirpartí þar sem Paradigmes með La Femme fær að óma undir.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Galsafullar laglínur og mikið Andans efni

Tónlist

Tónlist fyrir heiminn en ekki „heims“-tónlist