„Ég er ekki eins athyglissjúk og fólk heldur“

Mynd: Marta María Jónasdóttir / Aðsend

„Ég er ekki eins athyglissjúk og fólk heldur“

05.05.2021 - 15:24

Höfundar

Smartland Mörtu Maríu Jónasdóttur er tíu ára í dag, en ekki verður blásið til mikillar veislu til að fagna því frekar en fyrri ár. Smartlandsstýran sjálf er feimin við að halda ræður og mun minna partíljón en fólk heldur.

Mörtu Maríu Jónasdóttur fjölmiðlakonu og ritstjóra Smartlands á mbl.is ættu flestir að þekkja enda er vefurinn hennar einn sá vinsælasti á landinu, en líka nokkuð umdeildur. Í dag eru tíu ár frá því að Smartland var opnað og allr götur síðan hafa flætt frá honum fréttir af fólki, tísku, fasteignum og fleiru. Marta María kíkti í Lestina á Rás 1 og sagði frá ferðalaginu sem nú hefur staðið yfir í áratug.

Ferðalag sem ekki er að taka neinn enda

Marta hefur starfað við fjölmiðlun í tuttugu ár og komið víða við. Hún vann áður á Fréttablaðinu og Séð og heyrt og ritstýrði húsbúnaðatímaritinu Veggfóðri sem sameinaðist síðar Húsum og Híbýlum. Fyrir tíu árum var hún ráðin við að stýra lífsstílsvef hjá Árvakri en ekki voru allir sammála um hvað hann ætti að heita. „Ég var með mjög skýra sýn á að hann ætti að heita Smartland vegna þess að íbúðin mín var kölluð það í Húsum og híbýlum mörgum árum áður.“ Árna Matthíassyni kollega Mörtu leist ekki á blikuna. „Honum fannst eins og þetta nafn kæmi bara úr ræsinu og ég var heillengi að finna annað nafn, en það var ekkert annað sem súmmeraði upp það sem mig langaði að gera.“ Eftir miklar vangaveltur sagði Óskar Magnússon stjórnarformaður Árvakurs við hana: „Marta, ef þú vilt að þetta heiti Smartland þá heitir það bara Smartland,“ rifjar Marta upp. „Frá þessum fyrsta degi, 5. maí 2011, hefur þetta verið áhugavert og skemmtileg ferðalag sem er ekki að fara að taka neinn enda.“

„Þetta er ekki tískublogg“

Henni líkar alls ekki við orðið slúður og lítur ekki á sig sem neinn slúðurblaðamann því hún flytur ekki fregnir fyrr en þær eru staðfestar. „Slúður er eitthvað sem einhver sagði en þú ert ekki hundrað prósent viss um að það sé satt. Það sem ég hef lært á mínum tuttugu ára ferli er að það skiptir rosalega miklu máli að vera með allt tvö hundruð prósent. Að setja ekki neitt í loftið nema þú sért handviss um að það sé rétt.“

Það fer því fyrir brjóstið á henni þegar hún er spurð hvernig gangi að skrifa slúður eða þegar fólk spyr fregna af „bloggsíðu“ hennar um lífsstílsvef með allt að 150 þúsund notendur á viku. „Þetta er ekki tískublogg,“ segir hún.

Áður fyrr var fréttum skipt í harðar og mjúkar og hörðu fréttirnar voru í gífurlegum meirihluta. Nú segir Marta að þær mjúku hafi verið að sækja í sig veðrið og séu jafnmargar og þær hörðu. „Fólk hefur svo mikinn áhuga á náunganum,“ segir Marta.

Tækfæri til að gleyma sinni aumu tilveru

Oft hefur hún hugsað sér Smartland sem sumardvalarstað þar sem fólk getur fengið sér frí frá amstri dagsins og gleymt stund og stað. „Þú lest eitthvað skemmtilegt, sérð falleg heimili og það kveikir í þér og þig langar að mála vegginn í stofunni aftur. Þú getur gleymt þinni aumu tilveru,“ segir hún glettin. Það að vera manneskja sé snúið og við göngum öll í gegnum krefjandi tímabil. „Það er svo mikilvægt að hafa svæði sem þú getur flúið til ef tilveran er of erfið og okkar markmið hefur alltaf verið að draga fram hið jákvæða.“

En Marta færir oft fregnir af skilnaði fólks, ætli það teljist til jákvæðra frétta? „Af hverju er skilnaðarfrétt neikvæð frétt? Er fólk ekki að reyna að betra sig? Það hlýtur að vera að leita að betri tilveru.“

Heiðarleikinn skiptir mestu máli

Hún segist hafa gert mörg mistök á ferlinum og í þeim öllum hefur verið fólginn lærdómur. Meðal annars hefur hún lært að sannreyna allt áður en hún birtir fréttir af því. Það gerir hún til dæmis þegar hún flytur fregnir af fasteignum sem fara á sölu. „Skemmtilegast finnst mér ef ég get sagt tvær fréttir af sömu fasteigninni. Fyrst þegar hún fer á sölu og svo þegar einhver kaupir hana,“ segir hún.

Hún er með aðgang að Fasteignamati ríkisins og þó hún viti að einhver hafi keypt fasteign segir hún ekki frá því fyrr en upplýsingar hafa verið birtar þar. „Það borgar sig að gera þetta svona því ég hef líka fengið símtöl frá fólki sem þykist ekki eiga einhverjar fasteignir. Þá segi ég: Fyrir framan mig stendur að þú hafir keypt þessa íbúð tólfta nóvember og borgað þetta fyrir hana. Ertu að segja mér að gögnin hjá Fasteignamati ríkisins séu röng?“ Þá reynir fólk ekki lengur að malda í móinn. En hennar helsta markmið er að vera alltaf heiðarleg. „Ef þú ert heiðarlegur þá gengur allt miklu betur.“

Hefur ekki tíma til að velta sér upp úr neikvæðum athugasemdum

Marta kveðst lánsöm að fá að gera það sem hún hefur áhuga á og er þakklát fyrir viðtökurnar. Hún er vinnusöm og leggur allt í sölurnar þegar kemur að starfinu. Stundum hefur hún verið gagnrýnd en hún tekur það ekki inn á sig, hún hefur ekki tíma til þess. „Þetta hefur þróast út í að þegar virkir í athugasemdum eru að sparka í mig þá hef ég ekki tíma til að greina það því ég er með langan lista sem ég þarf að vinna,“ segir hún. „Ég er bara vinnuvél.“

Er ekki í kampavínsmarineringu með fína fólkinu

Hún er með þekktari andlitum í fjölmiðlabransanum og flestir kannast við hana þegar hún sést úti á götu. Það var þó aldrei markmið hennar að verða vörumerki sjálf. „Ég er ekki eins athyglissjúk og fólk heldur,“ segir hún. Smartlandið hefur til dæmis aldrei boðið í neinar veislur því Mörtu hryllir við því að þurfa að halda ræður. „Mér hefði fundist það svo óþægilegt. Ég er miklu feimnari en fólk gerir sér grein fyrir.“ Marta er sjálf róleg og heimakær og nýtur sín best í faðmi fjölskyldunnar þegar hún er ekki í vinnunni. „Ég geri miklu minna af því sem fólk heldur að ég sé að gera. Ég er ekki í kampavínsmarineringu í einhverjum VIP-boðum, ég er víðáttum frá því.“

Rætt var við Mörtu Maríu í Lestinni á Rás 1. Hér má hlýða á viðtalið í heild sinni.