Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Chauvin krefst nýrra réttarhalda

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Bandaríkjamaðurinn Derek Chauvin, sem dæmdur var í síðasta mánuði fyrir morðið á George Floyd, krefst þess að málið verði tekið upp að nýju. Verjandi hans segir Chauvin ekki hafa fengið sanngjörn réttarhöld vegna athyglinnar sem málið vakti, og yfirsjónar dómstólsins og saksóknara. Auk þess segir hann kviðdóm hafa legið undir miklum „kynþátta-þrýstingi."

Lagasérfræðingar bjuggust margir hverjir við þessu að sögn AFP fréttastofunnar. Nýverið birtist mynd af einum kviðdómaranna, þar sem sést til hans í mótmælagöngu gegn rasisma. Þar er hann klæddur í bol með mynd af mannréttindaleiðtoganum Martin Luther King yngri, og á honum eru áletranir á borð við „Takið hnén af hálsum okkar," og „BLM," sem stendur fyrir Black Lives Matter.

Hvergi er þó minnst á þennan tiltekna kviðdómara í kröfu Chauvins. Verjandi hans segir umfjöllunina um málið hafa verið svo umfangsmikla og skaðlega bæði fyrir réttarhöldin og meðan á þeim stóð að það jafnist á við galla í málsmeðferð.

AFP hefur eftir Jeffrey Frederick, sérfræðingi við val á kviðdómurum, að nú verði að bíða og sjá hvernig dómari metur málið. Þröskuldurinn í svona málum er hár að hans sögn, og er afar sjaldgæft að ný réttarhöld séu boðuð. 
Kviðdómur mat Chauvin sekan í öllum þremur ákæruliðunum í málinu, annarrar gráðu morð, morða af þriðju gráðu og manndráp. Refsing verður ákveðin 16. júní.