Tókust á um krónuna

04.05.2021 - 15:42
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þingmenn tókust á um stöðu efnahagsmála á Alþingi í dag og meðal annars hvort krónan hefði verið bölvun eða blessun í efnahagssamdrætti síðustu missera.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, lýsti áhyggjum af atvinnuleysi, verðbólgu og gengissveiflum. Hann sagði að krónan skapaði vandamál í íslensku efnahagslífi. „Hvernig ætlum við sem samfélag að auka stöðugleikann, efla íslenskan útflutning og fjölga tækifærum í íslenskri nýsköpun á meðan við höfum gjaldmiðil sem vinnur gegn þessum sömu markmiðum.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var á öndverðri skoðun og sagði að staðan hefði orðið enn verri ef Ísland væri með evru. Þá væri hætt við að atvinnuleysið hefði orðið ennþá meira. „Þá er enginn valkostur að sjá gjaldmiðilinn (Forseti hringir.) gefa aðeins eftir, sem er hans hlutverk við þær aðstæður. Það er ákveðin blessun í því efni að hafa krónuna,“ sagði Bjarni. Hann sagði batamerki í hagkerfinu, atvinnulausum hefði fækkað um nærri þúsund og auglýsingum eftir starfsfólki fjölgað.