Þyrla Landhelgisgæslunnar hellir vatni á sinubrunann

04.05.2021 - 17:28
Mynd: Unnar Friðrik Pálsson / Unnar Friðrik Pálsson
Þyrla Landhelgisgæslunnar dælir nú vatni yfir svæðið sem brennur í Heiðmörk. „Það gengur rólega og logar glatt. Við teljum samt að við séum búin að ná utan um þetta, í augnablikinu allavega. En þetta er hvikult svo maður veit ekki hvað gerist. Það er að minnsta kosti mikil vinna eftir,“ segir varðstjóri hjá Slökkviliðinu í samtali við fréttastofu. 

Um þrjátíu slökkviliðsmenn vinna að slökkvistörfum í Heiðmörk til að berjast við sinuelda sem kviknuðu þar á fjórða tímanum í dag. Að auki hefur verið kallaður út aukamannskapur, að minnsta kosti tíu frá björgunarsveitum, lögreglufólk og þyrla Landhelgisgæslunnar. 

Eldurinn er á milli Vífilsstaðavatns og Vífilsstaðahlíðar, á svæði sem kallað er Grunnuvötn, ofan við Vífilsstaðahlíð og Hjallamisgengi. Þar er lægð eða slakki á milli Vífilsstaðahlíðar, Hjallamisgengis, Arnarbælis og Sanhlíðar. Þar voru eitt sinn grunn vötn sem eru alveg þornuð upp í dag.

 

 

Mynd: Unnar Friðrik Pálsson / Unnar Friðrik Pálsson
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV