„Þorðum ekki að vona að við gætum fyllt húsið“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Það er ekki oft sem við segjum frá tíu ára afmælum. En í dag, á alþjóðlega Stjörnustríðsdeginum, er einmitt áratugur frá þessum merkisatburði: Flutningi Sinfóníuhjómsveitar Íslands úr Háskólabíói í Eldborgarsal Hörpu. „Við þorðum ekki að vona að við gætum fyllt húsið en svo bara mættu Íslendingar á tónleika alveg frá byrjun,“ segir Joseph Ognibene, hornleikari. „Við höfum ekki átt í neinum vandræðum með að fylla þetta hús.“

„Í dag fögnum við því að það eru tíu ár frá því Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt fyrstu tónleikana í Eldborgarsal Hörpu og eignaðist þar nýtt heimili. Það hefur breytt gríðarlega miklu fyrir hljómsveitina að fá svona frábæran sal með frábærum hljómburði. Öll umgjörð og vinnuaðstaða fyrir hljómsveitina breyttist mjög mikið,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

Fyrra lögheimili var Háskólabíó en munurinn á þessum tveimur húsakynnum er mikill.

„Fyrir okkur hljóðfæraleikara hérna á Íslandi þá var þetta allt annað líf, að geta æft sig hérna, hittast, sjá til sólar og geta spilað þessar tónverkaperlur í heimsklassahljómburði,“ segir Joseph Ognibene, hornleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þúsund sæti eru í Háskólabíó en átján hundruð í Eldborgarsalnum.

„Við þorðum ekki að vona að við gætum fyllt húsið en svo bara mættu Íslendingar á tónleika alveg frá byrjun,“ segir Joe. „Við höfum ekki átt í neinum vandræðum með að fylla þetta hús.“

En dagurinn í dag er merkilegur fyrir fleira því Joe á fjörutíu ára starfsafmæli með Sinfóníunni.

„Það var einmitt sólríkur maídagur eins og er í dag, kannski örlítið kaldara. Ég var að koma beint frá Los Angeles og mér fannst náttúrulega mjög kalt. Allir Íslendingarnir sögðu við mig: O, er ekki frábært veður? Þú ert svo heppinn. Ég var svolítið hissa að heyra það. En nú eftir 40 ár kann ég að meta svona veður. Ég kann að meta svona veður,“ segir Joe.

Er þá ekki viðeigandi að segja: May the fourth be with you?

„May the fourth be with you, akkúrat já! Ég hef aldrei sett þessa dagsetningu í samhengi við Star Wars en þetta er alveg satt já. 40 ár er langur tími og hljómsveitin hefur breyst til batnað. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag fyrir mig,“ segir Joe.