Telur frumvarp ráðherra normalísera fíkniefnaneyslu

04.05.2021 - 07:36
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segist ekki geta stutt frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta. Það gangi lengra en yfirlýst markmið ber vott um og geti leitt til þess að þeir sem selja fíkniefni sleppi við refsingu. Þá varar hann við að árangri Íslands í forvörnum ungs fólks get verið stefnt í voða með því að normalísera neyslu fíkniefna.

Þetta kemur fram í umsögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra ákærusviðs hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, um frumvarp Svandísar Svavarsdóttur. Það er nokkuð umdeilt og bæði ríkislögreglustjóri og Læknafélag Íslands leggjast gegn því.

Í umsögninni bendir Hulda Elsa á að íslenska forvarnamódelið hafi verið flutt út til annarra landa þar sem góður árangur hafi náðst varðandi vímuefnaneyslu ungmenna. Þeim góða árangri geti verið stefnt í hættu með afglæpavæðingu neysluskammta með því að normalísera neyslu fíkniefna. Þá verði aðgengi að fíkniefnum mun auðveldara ef neyslan er samþykkt af samfélaginu.

Hulda telur að það horfi einkennilega við að ætla miða bann á kaupum og vörslu neysluskammta við krakka yngri en 18 ára en ekki 20 ár eins og gert er í áfengislöggjöfinni. „Rannsóknir sýna að heilinn í ungmennum er ekki þroskaður fyrr en um 25 ára aldur og hugræn geta hans minnkar við neyslu kannabisefna,“ skrifar Hulda.

Þá segir hún að mjög stórt skref hafi verið stigið með skaðaminnkun að leiðarljósi með tilkomu svokallaðra neyslurýma. Hörð refsistefna ríki ekki hér á landi þegar komi að refsingu fyrir vörslu neysluskammta en grunnsekt fyrir fyrsta brot sé 50 þúsund krónur. 

Hulda segir að það sé mat lögreglustjóraembættisins að nær hefði verið að móta heildstæða stefnu áður en frumvarpið var lagt fram. Huga að því hverjir væru neytendur og hvernig afglæpavæðing fari saman við vinnu um fíkniefnaforvarnir til að verja börn og ungmenni.  

Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér.