Sveitarstjóri horfir á röðina í skimun út um gluggann

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Á bilinu 200 til 300 íbúar á Flúðum verða skimaðir fyrir kórónuveirunni í dag, þar á meðal 55 sem fara í seinni skimun og geta losnað úr sóttkví reynist sýni neikvæð. Fjórir eru í einangrun með virkt smit, sá síðasti bættist í hópinn í gær. Sveitarstjóri Hrunamannahrepps horfir á röðina í skimun út um gluggann hjá sér.

„Við erum þokkalega bjartsýn. Fyrir utan ákveðinn skell í byrjun er fólk komið aftur á jörðina og þessi mikla þátttaka í sýnatökunni gefur til kynna að fólk ætli sér að komast til botns í þessu öllu,“ segir Jón Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, í samtali við fréttastofu. Ekki væsir um fólkið í röðinni því blíða er á Flúðum, eins og svo oft áður.

Alls hafa þrjár hópsýkingar komið upp á Suðurlandi en ekki hefur tekist að rekja þær saman. Sú stærsta tengist fyrirtækinu Ramma í Þorlákshöfn en hin komu upp eftir smit í leikskóla á Selfossi. 

Á Flúðum var gripið til þess að loka nánast öllu eftir að þrír íbúar greindust með veiruna. „Á Flúðum þekkjast allir upp á tíu þannig við vinnum bara í þessu saman,“ sagði Orri Ellertsson, stuðningsfulltrúi í Flúðaskóla, í viðtali við fréttastofu um helgina. Hann var einn þeirra sem þurfti að fara í sóttkví eftir að smit kom upp í skólanum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV