Sveitarfélögin fjölga sumarstörfum vegna faraldursins

04.05.2021 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fimm fjölmennustu sveitarfélög landsins hafa fjölgað sumarstörfum til að bregðast við auknu atvinnuleysi vegna kórónuveirufaraldursins. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti nýlega að fjölga sumarstörfum um 750 til að koma sérstaklega til móts við sautján ára einstaklinga og námsmenn átján ára og eldri.

Alls verða rúmlega 1.700 sumarstörf og sumarafleysingar í boði hjá borginni í sumar. „Reykjavíkurborg mun fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri í samvinnu við Vinnumálastofnun og geta fag- og kjarnasvið skapað allt að 500 störf þar sem ráðningartímabilið hjá hverjum og einum verður allt að tíu vikur. Áætlaður heildarkostnaður Reykjavíkurborgar, þegar búið er að reikna mótframlag frá ríki, verður 131 milljón króna,“ segir í skriflegu svari Reykjavíkurborgar.

Störfum fyrir 17 ára einstaklinga verður fjölgað um 250 en erfitt hefur verið fyrir ungmenni á þeim aldri að finna vinnu sökum aldurstakmarka og skipulags vinnuskóla sveitarfélaga.

Kópavogur og Hafnarfjörður fjölga sumarstörfum töluvert í kjölfar faraldursins

Kópavogsbær gerir ráð fyrir að ráðið verði í um 750 sumarstörf hjá bænum í ár sem er svipaður fjöldi og í fyrra. „Það var gríðarleg aukning frá árinu á undan, höfðu verið 425 árið 2019,“ segir í skriflegu svari Kópavogsbæjar. Tekið er fram að endanlegur fjöldi sumarstarfa liggi ekki fyrir en í svari bæjarins eru einungis talin sumarstörf fyrir 18 ára og eldri.

Hafnarfjarðarbær ætlar að ráða nema í 81 stöðugildi í sumar í gegnum átaksverkefni yfirvalda. Það er til viðbótar um 300 störfum fyrir 18 ára og eldri sem ráðið er í á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

„Í fyrrasumar fengu um 1.160 einstaklingar á aldrinum 14 til 17 ára vinnu hjá bænum og hefur 17 ára aldurshópurinn hjá sveitarfélaginu aldrei verið stærri. Störf í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2020 voru um 1.500 en eru á venjulegu ári um 1.000. Heildartala sumarstarfa 2021 liggur ekki fyrir en mun gera það fyrir lok mánaðar þegar þörfin liggur fyrir og ákvörðun um innspýtingu hefur verið tekin,“ segir í skriflegu svari.

Breytingar á rekstri öldrunarheimila á Akureyri hafa áhrif

Öllum Akureyringum á aldrinum 14-25 ára verður boðið sumarstarf eða þátttaka í Vinnuskóla Akureyrarbæjar. „Í fyrra voru rétt innan við 600 einstaklingar ráðnir í sumarafleysingar, átaksverkefni námsmanna, átak 17 til 25 ára og störf fyrir 17 ára, auk þess voru 430 ráðnir í vinnuskóla fyrir 14-16 ára,“ segir í svari bæjarins.

„Í ár er fjöldinn sambærilegur í ráðningar í sumarafleysingar en vegna flutnings Öldrunarheimila Akureyrar til Heilsuverndar 1. maí færast ráðningar í um 120 störf við sumarafleysingar á ÖA frá Akureyrarbæ til Heilsuverndar. Töluverð óvissa er um hver endanlegur fjöldi verður í átaksverkefnum sumarsins en áætlanir gera ráð fyrir fjölgun frá fyrra ári,“ segir þar.

„Förum sömu leiðir í ár og í fyrra“

Í skriflegu svari frá Reykjanesbæ, sem hefur orðið einna verst fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum, kemur fram að sveitarfélagið hafi annars vegar leitast við að ráðstafa fjármunum með þeim hætti að þeir leiði til sem flestra starfa. Þá hafi bærinn nýtt úrræði Vinnumálastofnunar og tekið þátt í átaksverkefnum stjórnvalda.

„Við munum fara sömu leiðir í ár og í fyrra. Við munum ráða í allt að 267 störf í gegnum átak stjórnvalda um sumarstörf fyrir námsmenn en þau voru um 200 í fyrra. Þá bjóðum við öllum sem verða 17 ára á árinu til starfa í Vinnuskólanum, en í eðlilegu árferði stendur það ekki til boða. Gera má ráð fyrir að um 160 þiggi þau störf í ár, en voru um 150 í fyrra. Þar fyrir utan eru um 300 ungmenni í Vinnuskóla Reykjanesbæjar,“ segir í svari bæjarins.