Sósíalistar vilja byggja 30 þúsund íbúðir á tíu árum

04.05.2021 - 17:56
Mynd með færslu
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands. Mynd: RÚV
„Sósíalistaflokkur Íslands gerir kjósendum tilboð um að greiða atkvæði sitt í haust með stóru húsnæðisbyltingunni, byggingu 30 þúsund íbúða á tíu árum, sem mun fara langleiðina í að eyða hinni landlægu húsnæðiskreppu,“ segir í tilkynningu frá flokknum. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, segir húsnæðismarkaðinn hafa verið braskvæddan og að stjórnvöld hafi dregið lappirnar við að bregðast við neyðinni sem hafi skapast.

Alþýðusamband Íslands skoraði í gær á stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til Alþingis í haust að skýra áform sín í húsnæðismálum. Gunnar segir að Sósíalistaflokkurinn svari kalli ASÍ með því að birta þetta tilboð sem sé hluti af kosningastefnuskrá flokksins.

„Við byggðum þetta á mati opinberra aðila sem mátu það að uppsöfnuð þörf væri um fjögur þúsund íbúðir og síðan þyrfti að byggja um tvö þúsund íbúðir á ári á næstu árum. Við töldum að það væri til þess að viðhalda óbreyttum húsnæðismarkaði og að þarna vantaði í rauninni að taka tillit til biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum, biðlista eftir námsmannaíbúðum, biðlista eftir íbúðum hjá öryrkjum og öðru slíku,“ segir Gunnar í samtali við fréttastofu.

Byggja á íbúðirnar með því að stofna Húsnæðissjóð almennings sem á að afla 70 prósent nauðsynlegs fjármagns með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Ríki og sveitarfélög eiga að leggja til um 13 prósent kostnaðarins í formi lóða og um 17 prósent á að koma sem lán frá ríkissjóði á lægstu vöxtum, lán sem greiðist til baka á endingartíma íbúðanna.

Húsnæðissjóðurinn leigir húsnæði síðan til leigufélaga almennings en til að tryggja ódýrar framkvæmdir á ríkið að stofna byggingafélag og stuðla að stofnun byggingafélaga sveitarfélaganna og samvinnufélaga byggingaverkafólks.

„Við erum þarna með hugmyndir um að auka hlut félagslegs húsnæðis úr átta prósentum upp í 24 prósent,“ segir Gunnar. Hann segir að stjórnvöld hafi dregið lappirnar við að bregðast við neyðinni sem skapast hafi á húsnæðismarkaði bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. „Lágtekjufólk, öryrkjar, eftirlaunafólk og námsfólk hefur klemmst á milli lágra tekna og sífellt hærri húsnæðiskostnaðar,“ segir hann.

„Íslenskur húsnæðismarkaður var braskvæddur. Þegar við horfum ekkert svo langt aftur í tímann - kannski fjörutíu ár - þá voru hér byggingarsamvinnufélög. Það voru verkamannabústaðir og félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaganna voru mun stærri hluti markaðarins. Hérna var félagslegt kerfi og félagsleg stjórn á hluta af markaðnum. Það var tekin ákvörðun um það að færa öll völd og allar ákvarðanir á þessum markaði yfir til einkaaðila,“ segir Gunnar.

Gerir ráð fyrir að listar flokksins verði kynntir um mitt sumar

Sósíalistaflokkur Íslands mældist með um fimm prósent fylgi í Þjóðarpúlsi Gallup sem kom út í gær og fengi samkvæmt því þrjá þingmenn kjörna. Enn á þó eftir að kynna lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar í haust.

„Við höfum rætt um að gera það svona um mitt sumar. Vanalega hafa flokkarnir verið að birta lista kannski tveimur eða þremur mánuðum fyrir kosningar. Í vetur byrjuðu nokkrir flokkar að birta lista hálfu ári fyrir kosningar og jafnvel fyrr. Við sáum ekki ástæðu til að gera það. Við myndum gjarnan vilja ræða um stjórnmál. Því miður snýst umræða í fjölmiðlum oft um það hverjir eru á lista, hver útkoman er í skoðanakönnunum og með hverjum ætlað er að mynda stjórn. Við myndum gjarnan vilja tala um pólitík,“ segir Gunnar.

En hyggstu leiða lista flokksins í einhverju kjördæmi?
„Það er ekki ég sem tek ákvörðun um það. Það starfar í flokknum kjörnefnd sem er slembivalinn hópur almennra félaga. Hann raðar á listann.“