Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Smit á Indlandi yfir 20 milljónir

04.05.2021 - 12:14
epa09139238 A health worker takes a swab sample of a woman to test for COVID-19 at a roadside testing center in New Delhi, India, 16 April 2021. According Delhi Disaster Management Authority's orders, gyms, spas, malls and auditoriums will remain closed untill further notice while cinema halls will be permitted to open with 30 percent of seating capacity on weekdays. These restrictions will come into effect from Friday onwards.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
COVID-19 smit á Indlandi eru orðin fleiri en tuttugu milljónir, þar af á níundu milljón síðan í marslok. Stjórnvöld eru sökuð um að leyna raunverulegum fjölda smitaðra og látinna. Þau vonast til þess að hið versta sé yfirstaðið.

Tilkynnt var um rúmlega 350 þúsund ný smit í dag. Flest urðu þau 402 þúsund á einum degi í síðustu viku. Nokkuð hefur þó dregið úr skimunum fyrir veirunni, sem kann að nokkru leyti að skýra fækkunina. Dauðsföllin eru komin yfir 222 þúsund.

Lav Aggarwal, hátt settur yfirmaður í heilbrigðisráðuneytinu í Nýju-Delhi, sagði í dag á fundi með fréttamönnum að vísbendingar væru um að hið versta væri yfirstaðið, en kanna þyrfti ástandið nánar.

Nokkur ríki á Indlandi hafa gripið til útgöngubanns til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Stjórnvöld í Bihar skipuðu fólki í dag að halda sig heima. Þar búa um 120 milljónir. Þá var tilkynnt í dag að öllum leikjum í úrvalsdeildinni í krikket yrði frestað um óákveðinn tíma og leikmennirnir sendir heim. Einum leik var frestað í gær þegar tveir leikmenn reyndust smitaðir. Stjórnendur deildarinnar höfðu barist hart gegn frestun og báru við að mikið fé myndi tapast.