Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir ekki tímabært að slaka á sóttvörnum

04.05.2021 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekki ráðlagt að slaka á sóttvarnaráðstöfunum að svo stöddu því faraldurinn gæti blossað upp að nýju.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir um eina viku. Þórólfur vonar hins vegar að hægt verði að fara í afléttingar á komandi vikum.

"Þetta hefur verið ansi gott síðustu dagana og reyndar vorum við bara með eitt smit utan sóttkvíar í gær og ég vona að þetta haldi áfram að vera á þessu róli þá getum við haldið áfram með afléttingar í framhaldi af því,“ segir Þórólfur.

Hátt í 130 þúsund manns hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, eða um 40 prósent fullorðinna. Þórólfur segir það ekki duga til að hægt sé að draga verulega úr sóttvörnum.

„Þetta er ekki nóg til þess að skapa eitthvað ónæmi í samfélaginu. Til þess að koma í veg fyrir faraldra. Við getum fengið mjög stóran og útbreiddan faraldur hjá fólki sem er óbólusett, yngra fólki. Auðvitað er fólk með undirliggjandi vandamál varið en þetta er ekki nægilegt til þess að koma í veg fyrir stóran faraldur hér innanlands,“ segir Þórólfur.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV