Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rannsókn heitið á lestarslysi í Mexikó

04.05.2021 - 15:34
epa09176639 Emergency services agents work at the spot of an accident of the Mexico City's subway at the bridge between the Olivos and Tezonco stations, in Mexico City, Mexico, 04 May 2021. At least 15 people died and another 70 were injured when a bridge on the elevated track of line 12 of the Mexico City Metro between Olivos and Tezonco station collapsed.  EPA-EFE/Sáshenka Gutierrez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Járnbrautarbrú í Mexíkóborg hrundi í gærkvöld með þeim afleiðingum að að minnsta kosti 23 létust og tugir slösuðust. Þetta er mannskæðasta slys í jarðlestakerfi borgarinnar í marga áratugi.

Andrés Manuel Lopez Obrador forseti sendi þeim batakveðjur í dag sem slösuðust og vottaði öllum samúð sína sem misstu ástvini. Hann hét ítarlegri rannsókn á ástæðum þess að brúin hrundi. Engu yrði haldið leyndu fyrir almenningi. Hið sama gerði Claudia Sheinbaum borgarstjóri, sem sagði að óháðu fyrirtæki yrði falið að rannsaka slysið.

Tveir lestarvagnar féllu niður á fjölfarinn veg undir brúnni þegar hún gaf sig. Einn bíll kramdist undir brakinu, en ökumaðurinn slapp lifandi. 65 til 70 slösuðust, þar af sjö alvarlega.

Slysið varð á leið 12 í jarðlestakerfinu, þeirri nýjustu, sem var opnuð fyrir innan við áratug. Að sögn fjölmiðla er mikil reiði meðal borgarbúa, ekki síst þeirra sem búa nálægt brúnni. Þeir voru búnir að vara við því að burðarkerfið væri laskað eftir jarðskjálfta sem reið yfir árið 2017. Að þeirra sögn léku hús þeirra á reiðiskjálfi þegar lestir óku yfir brúna.