Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Minnst fimmtán fórust þegar lestarbrú hrundi í Mexíkó

04.05.2021 - 05:56
epa09176552 Aftermath of a metro overpass collapse in Mexico City, Mexico, 03 May 2021. At least 15 people died and another 70 were injured when a bridge on the elevated track of line 12 of the Mexico City Metro between Olivos and Tezonco station collapsed.  EPA-EFE/Carlos Ramirez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst tuttugu létust og 70 slösuðust þegar lestarbrú hrundi í úthverfi Mexíkóborgar í þann mund sem borgarlest var ekið yfir hana í gærkvöld. Mexíkóskir fjölmiðlar hafa birt upptökur úr öryggismyndavélum sem sýna atvikið, sem varð um klukkan 22.30 að staðartíma. Hætta þurfti björgunaraðgerðum vegna hættu á frekara hruni.

Á ljósmyndum má sjá lestarvagna hanga niður úr brúnni og minnst einn bíl á götunni þar fyrir neðan, sem varð undir brakinu. Viðbragðsaðilar voru með mikinn viðbúnað á vettvangi og voru hin slösuðu flutt á nokkur sjúkrahús í grennd við slysstaðinn til aðhlynningar. 

Tugir slökkviliðs- og björgunarsveitamanna sem unnu að því að ná fólki út úr vögnunum sem héngu niður úr brúarleifunum neyddust til að hætta björgunarstörfum í miðjum klíðum, þar sem hvort tveggja lestin og brúin eru talin verulega ótraust og því hætta á frekara hruni. Stjórnandi björgunaraðgerða sagði fyrirhugað að nota stóra krana til að draga úr líkum á því að illa fari, og hlé verði gert á aðgerðum þar til þeir koma á vettvang. 

Fréttin hefur verið uppfærð til samræmis við nýjustu upplýsingar um fjölda látinna og framgang björgunaraðgerða.

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV