Mikilvægt að skera úr um hvort íbúðir skorti

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Tvennum sögum fer af því hvort það skorti íbúðir á markað. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir þörfina mikla en Hagfræðideild Landsbankans segir skortinn lítinn sem engan. Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir mikilvægt að skera úr um hver staðan er.

 

„Það er ótrúlega óheppilegt ef við höfum ekki eins skýra mynd og við getum haft á því hver þörfin er fyrir íbúðir í framtíðinni af því að við vitum hvað gerist ef við byggjum of lítið,“ segir Konráð. Hann segir að verði ekki nóg byggt skapist ýmis vandamál, það verði miklar hækkanir, meiri en hafi sést undanfarið og svo éti þetta upp kaupmátt fólks sem annars hefði verið meiri. „Það er þá húsnæðismarkaðurinn sem er sökudólgurinn að miklu leyti.“

Telur að enn sé skortur

Konráð segir sterkar vísbendingar um að enn skorti margar íbúðir, úttektir sýni að fólk búi þrengra en oft áður og fjöldi fólks búi í iðnaðarhúsnæði. Hann segir mikilvægt að áætla byggingaþörf út frá mannfjöldaspám. Fari atvinnulífið að glæðast telur hann viðbúið að fleiri flytji til landsins en frá því enda lífskjör og tekjur góðar hér samanborið við víða annars staðar. „Ef að við höldum okkur í þeirri stöðu, sem hlýtur að vera markmið allra sama hvar þeir standa, þá mun fólk streyma hingað áfram að og þá mun þurfa miklu meira heldur en 1700 íbúðir á ári, allavega næstu árin og sérstaklega með hliðsjón af þessum  uppsafnaða skorti, hvort sem hann er 500 íbúðir eða 5000 íbúðir.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV