Kona handtekin í Noregi, grunuð um morð

04.05.2021 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd: Per Øyvind Fange - NRK
Lögregla í norska bænum Halden í Austurfold handtók í nótt konu sem grunuð er um morð í heimahúsi í bænum. Fjölmennt lögreglulið fór á vettvang eftir að neyðarlínunni bárust símtöl frá áhyggjufullum nágrönnum, sem heyrðu neyðaróp úr íbúð fjölbýlishúss í miðbænum.

Norska ríkisútvarpið hefur eftir vitnum að hrópað hafi verið hástöfum á hjálp og að harkalega hafi verið tekist á inni í íbúðinni, af hljóðunum að dæma. Lögregla upplýsir að þegar hún kom á vettvang hafi hún fundið eina manneskju látna í íbúðinni, með mikla ytri áverka, og eina konu á fimmtugsaldri, sem hafi ekki streist á móti handtöku.

Frode Petersen, sem stjórnaði aðgerðum lögreglu á vettvangi, staðfestir að konan hafi verið handtekin, grunuð um manndráp. Hann segir þó of snemmt að segja nokkuð um mögulegt samband milli konunnar og fórnarlambs hennar, eða mögulegar ástæður verknaðarins. Búið er að taka skýrslur af fjölda vitna og rannsókn á vettvangi stóð langt fram eftir nóttu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV