Kallar eftir umræðu um regluverk um auglýsingar

04.05.2021 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ástæðu til að ræða hvort breyta þurfi reglugerð um skoðanaauglýsingar. Stjórn Blaðamannafélags Íslands gagnrýndi stjórendnur Árvakurs um helgina fyrir að birta auglýsingu Samherja sem væri „hluti af ófrægingarherferð gegn Helga Seljan og félögum hans í Kveik.“

„Skoðanaauglýsingar eru í rauninni ekki hluti af því regluverki sem við erum með almennt um auglýsingar. Þetta hefur auðvitað vakið mikla athygli og mikil viðbrögð í samfélaginu og sjálf hef ég sagt að mér finnist þetta of langt gengið í slíkum auglýsingum en við erum reyndar líka með fleiri dæmi um slíkar skoðanaauglýsingar sem eru í gangi núna og hafa til að mynda verið um borgarstjórann í Reykjavík,“ segir Katrín.

„Við erum núna með frumvarp inni í þinginu hvað varðar nafnlausan áróður þannig að við höfum verið að stíga ákveðin skref,“ segir hún. „Mér finnst alveg ástæða til að við tökum umræðu um hvað okkur finnst um þetta og hvort við viljum sjá eitthvað slíkt regluverk.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV