Íslandsmeistararnir skoruðu níu mörk í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Íslandsmeistararnir skoruðu níu mörk í Kópavogi

04.05.2021 - 21:03
Íslandsmeistarar Breiðabliks tóku á móti Fylki á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar buðu upp á markaveislu.

Breiðabliki er spáð 2. sæti í deildinni í ár en Val er spáð titlinum. Það hafa orðið afar miklar breytingar á liði Breiðabliks frá því í fyrra. Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við þjálfun liðsins af Þorsteini Halldórssyni, og þá fóru Sveindís Jane Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir út í atvinnumennsku. 

Það tók Breiðablik 27 mínútur að opna markareikninginn á Kópavogsvelli. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom Blikum þá í 1-0. Tiffany Janea McCarty, sem kom frá Selfossi til Breiðabliks fyrir tímabilið, bætti við öðru marki Blika á 31. mínútu og Karitas Tómasdóttir skoraði þriðja markið áður en flautað var til hálfleiks. 

Þær Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Áslaug Munda, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Birta Georgsdóttir bættu allar marki við í síðari hálfleik, Birta skoraði tvö mörk. 

Leiknum lauk með 9-0 sigri Breiðabliks, sem fer af stað með látum.