Hróarskelduhátíðinni aflýst annað árið í röð

Mynd með færslu
 Mynd: https://commons.wikimedia.org

Hróarskelduhátíðinni aflýst annað árið í röð

04.05.2021 - 06:59

Höfundar

Hróarskelduhátíðinni hefur verið aflýst annað árið í röð vegna kórónuveirufaraldursins. Forsvarsmenn hátíðarinnar segjast miður sín að þurfa grípa til þessa úrræðis. Þetta sé ekki léttvæg ákvörðun en það sé einfaldlega ekki forsvaranlegt að halda 130 þúsund manna hátíð. Stefnt er að því að halda hátíðina á næsta ári. Þeir sem höfðu þegar keypt sér miða geta annað hvort fengið hann endurgreiddan eða geymt hann til næsta árs.

Þetta kemur fram í dönskum fjölmiðlum.

Fjöldi skipuleggjenda í Danmörku hefur neyðst til að aflýsa tónlistarhátíðum sínum í sumar þar sem afléttingaráætlun stjórnvalda gerir ekki ráð fyrir stórum tónleikum.

Hægt verður að halda 2.000 manna tónleika frá 21. maí til 1. ágúst með 200 manna hólfum. Frá 1. ágúst má halda tónleika með 5.000 gestum þar sem 500 verða í hverju sóttvarnahólfi.

Nýjar reglur taka gildi í Danmörku á morgun. Þá verða grunnskólar landsins opnaðir á ný en háskólar verða að bíða enn um sinn. Kvikmyndahús og leikhús mega taka á móti gestum og líkamsræktarstöðvar fá að opna á ný.

Dönsk yfirvöld eru sátt við stöðu mála í faraldrinum og hafa meðal annars ákveðið að bólusetja ekki með bóluefni Janssens og Astra Zeneca.