Hlýtur starfslaun til þriggja ára frá danska ríkinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bára Gísladóttir

Hlýtur starfslaun til þriggja ára frá danska ríkinu

04.05.2021 - 14:45

Höfundar

Bára Gísladóttir, tónskáld, fær starfslaun til þriggja ára frá danska listasjóðnum.

Alls hljóta 211 tónlistarmenn starfslaun úr sjóðnum. Bára Gísladóttir hlýtur full starfslaun til þriggja ára, 855.000 danskar krónur, ein aðeins þriggja listamanna.

Í rökstuðningi segir að tónlist Báru sé í senn dýnamísk, harðneskjuleg og blíð. Verk hennar búi yfir kvikmyndalegum eiginleikum og kalli fram sterkar myndir af miklum víðáttum og blóði drifnum fjallstoppum. „Þetta er tónlist sem er sköpuð af mikilli natni, þar sem mörkin milli hljóma, uppsprettu þeirra og rýmisins þar sem hún er flutt þurrkast á stundum út með öllu.“

Bára hefur gefið út fimm hljómplötur. Hennar nýjasta, Caeli, sem hún gerði í samstarfi við Skúla Sverrisson, kom út í mars á þessu ári. Hún var tilnefnd til Carl-verðlaunanna sem tónskáld ársins 2020. Árið 2019 hlaut hún viðurkenningu stofnunar Carl Nielsen og Anne Marie Carl-Nielsen, sem heiðrar til skiptis tónlistar- og höggmyndlistafólk. Árið 2018 hlaut hún verðlaun Léonie Sonning í flokki upprennandi tónlistarfólks, en verðlaunin eru ein þau virtustu sem veitt eru í Danmörku.

 

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Bára tilnefnd sem tónskáld ársins í Danmörku

Klassísk tónlist

Bára Gísladóttir hlýtur danska viðurkenningu