Hjón á sextugsaldri grunuð um sölu á nýfæddum börnum

04.05.2021 - 04:43
epa05579210 A sign reading 'Polizei' (Police) shines in the morning at the Police Directorate in Leipzig, Saxony, Germany, 10 October 2016. Fugitive terror-suspect Jaber al-Bakr was arrested in the night in Leipzig. The 22-year-old Syrian had been on the run since an anti-terrorist raid on 08 October, in Chemnitz. Several hundred grams of explosives were reportedly found during a search in an apartment where al-Bakr was staying.  EPA/JAN WOITAS
 Mynd: epa
Lögregla í þýska sambandsríkinu Saarlandi handtók á dögunum hjón á sextugsaldri, grunuð um aðild að mansali og sölu á börnum. Eru hjónin talin tileyra skipulögðum glæpasamtökum, sem meðal annars stunda sölu á nýfæddum börnum, samkvæmt fréttatilkynningu lögreglunnar í Saarbrücken.

Í tilkynningu lögreglunnar segir að hin handteknu séu 58 ára karlmaður og 51 árs kona, bæði búlgarskir ríkisborgarar. Eru þau grunuð um að hafa flutt minnst átta þungaðar konur, sem áttu skammt eftir af meðgöngunni, frá Búlgaríu til Grikklands, þar sem þær ólu börnin í heiminn.

Talið er að hjónin hafi lofað konunum greiðslu fyrir kornabörnin og komið þeim í hendur félaga sinna í glæpasamtökunum, sem seldu þau áfram. Hjónin voru handtekin í bænum Neunkirchen á fimmtudag, eftir að yfirvöld í Búlgaríu gáfu út handtökuskipun á hendur þeim innan Evrópusambandsins, og eru þau nú í gæsluvarðhaldi.