Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Hættan sem skapast þegar ekki er farið varlega“

04.05.2021 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að slökkviliðið telji sig vera búið að ná að hefta útbreiðsluna á sinueldi sem kviknaði í Heiðmörk á fjórða tímanum í dag. Enn sé þó mikil vinna framundan við að slökkva eldinn.

Allt tiltækt slökkvilið, lögregla og landhelgisgæslan hefur barist með aðstoð þyrlu við gróðurelda sem hafa logað sunnan við Vífilsstaðavatn í Heiðmörk nærri höfuðborgarsvæðinu í dag. Jón Viðar segir ekki liggja fyrir hvernig eldurinn kviknaði.

„Við vitum það ekki á þessari stundu en það er rík áhersla á það frá okkur að fólk fari varlega og passi allt sem þarf að passa, vera ekki að grilla neins staðar úti í náttúrunni og passa að í rauninni eitt lítið skot af sígarettustubb út í loftið, eða eitthvað því um líkt, getur verið ástæðan fyrir einhverjum svona hlutum,“ segir hann.

„Þetta er hættan sem skapast þegar ekki er farið varlega, ef við gefum okkur að það sé það sem er að valda þessu,“ segir Jón. „Það þarf í rauninni bara eitt óviljaverk eða að menn séu ekki að gæta að sér.“

Hann segir að slökkvistarf hafi verið flókið þar sem erfitt hafi verið að koma tækjum og tólum að brunasvæðinu. Engum stafi ógn af eldinum en talsverð hætta skapist þegar svo umfangsmiklir gróðureldar kvikni.

„Það er mjög mikil hætta, fyrir utan tjónið á þessum náttúruperlum og dýraríkinu,“ segir Jón. Þá geti fólk lent í sjálfheldu. „Bæði fólk og dýr geta lent í sjálfheldu og þess vegna þarf bara að fara mjög varlega, sérstaklega með eld,“ segir hann.

„Eins og staðan er núna þarf að vakta svæðið því þetta getur rokið upp þó svo að menn haldi að það sé búið að ráða niðurlögum eldsins,“ segir Jón Viðar.