Greiða engan fyrirtækjaskatt þrátt fyrir metsölu

04.05.2021 - 10:02
epa06898241 (FILE) - A general exterior view of the new Amazon Logistic and Fulfillment Center in Dortmund, Germany, 14 November 2017 (re-issued 19 July 2018). Reports on 19 July 2018 state Amazon crossed the 900 billion USD line on 18 July after its
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Amazon í Lúxemborg sem heldur utan um sölu fyrirtækisins í stærstu ríkjum Evrópu var rekið með tapi í fyrra þrátt fyrir algjört sölumet í faraldrinum. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Þar með greiðir Amazon engan fyrirtækjaskatt. Fyrirtækið vann sér þess í stað inn skattaafslátt sem það getur notað gegn skattgreiðslum í framtíðinni. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt fyrir að byggja starfsemi sína upp þannig að það komist hjá því að greiða skatta.

Amazon seldi vörur og þjónustu fyrir 44 milljarða evra, andvirði rúmlega 6.600 milljarða króna, í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og fleiri Evrópuríkjum í fyrra. Það er þriðjungi meira en árið áður. Þrátt fyrir þetta var fyrirtækið rekið með 1,2 milljarða evra tapi. Fjallað er um uppgjör fyrirtækisins í The Guardian í dag. Þar kemur fram að Amazon aflaði sér skattaafsláttar sem það getur notað vegna tapsins. Uppsafnað tap sem hægt er að nýta á móti skattgreiðslum nemur 2,7 milljörðum evra, andvirði rúmlega 400 milljarða króna.

Vægðarlaus herferð gegn sköttum

„Svo virðist sem Amazon haldi áfram vægðarlausri herferð sinni til að komast hjá því að greiða skatta,“ hefur The Guardian eftir Margaret Hodge, þingmanni breska Verkamannaflokksins. Paul Monaghan, framkvæmdastjóri Fair Tax Foundation, samtaka sem berjast gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja, segir tölurnar reyna á ímyndunaraflið, jafnvel þegar Amazon á í hlut. Hann segir að fyrirtækið auki stöðugt markaðshlutdeild sína en komist að mestu hjá því að greiða skatta.

Stjórnendur Amazon hafa bent á fjárfestingu í tækniþróun og kaupum á húsnæði undir starfsemi sína sem ástæðuna fyrir því að fyrirtækið greiði ekki hærri fyrirtækjaskatta en raun ber vitni.

Dómsmál vegna skatta í Lúxemborg

Höfuðstöðvar Amazon innan Evrópusambandsins eru í Lúxemborg þar sem skattaumhverfi er hagstætt stórfyrirtækjum. Þrátt fyrir það fyrirskipaði Evrópusambandið árið 2017 að Amazon skyldi greiða Lúxemborg 250 milljónir evra í vangoldna skatta. Framkvæmdastjórnin sagði þá að fyrirtækið hefði komist hjá því að greiða skatta af meirihluta hagnaðar síns innan Evrópusambandsins með því að flytja hagnaðinn skattfrjálst í annað félag. Stjórnvöld í Lúxemborg kærðu þá niðurstöðu og er niðurstöðu dómstóla að vænta í næstu viku, samkvæmt umfjöllun Reuters.

epa09175595 US President Joe Biden (R) boards Marine One to Joint Base Andrews, on the Ellipse of the White House in Washington, DC, USA, 03 May 2021. US President Biden and the first lady embarked to a trip to Yorktown, Virginia.  EPA-EFE/ERIN SCOTT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BLOOMBERG POOL

Biden gagnrýnir stórfyrirtæki

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýsti í lok mars óánægju sinni með það að stórfyrirtæki kæmust hjá því að greiða skatta með því að notfæra sér skattaskjól og glufur í skattalöggjöf. Hann lagði til alþjóðlegt viðmið um að fyrirtæki borgi að lágmarki 21 prósents fyrirtækjaskatt. Fjármálaráðherrar Þýskalands og Frakklands tóku vel í hugmyndina. 

Biden tiltók Amazon sérstaklega í ræðu sinni. Hann sagði að árið 2019 hefði 91 af 500 stærstu fyrirtækjum heims á lista Forbes ekki greitt neina alríkisskatta. „Slökkviliðsmaður og kennari borga 22 prósent. Amazon og 90 önnur stórfyrirtæki borgar ekkert í alríkisskatta,“ sagði forsetinn og hét því að breyta því.