Færri hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19

04.05.2021 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi hafa minnkað en þeim fjölgar sem finnst of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af faraldrinum hér á landi og sem finnst almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til að bregðast við henni. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.

Um 51 prósent þeirra sem tóku afstöðu í netkönnuninni, sem gerð var 21. apríl til 2. maí, hafa nú frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum COVID-19 hér á landi, samanborið við sextíu prósent þeirra sem tóku þátt í könnun sem gerð var fyrri hluta síðasta mánaðar.

23 prósent landsmanna óttast frekar mikið að smitast af COVID-19 og þrjú prósent óttast það mjög mikið. Í byrjun síðasta mánaðar óttuðust 18 prósent landsmanna það frekar mikið og fimm prósent mjög mikið.

Þeim fjölgar sem finnst of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af faraldrinum hér á landi og sem finnst almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til að bregðast við henni. 24 prósent landsmanna telja allt of lítið eða aðeins of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID, samanborið við 21 prósent í síðustu könnun. Fjórðungur landsmanna telur almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til að bregðast við faraldrinum.

Þá treysta fleiri almannavörnum, heilbrigðisyfirvöldum og ríkisstjórninni til að takast á við COVID-19. Þannig treysta 94 prósent landsmanna almannavörnum og heilbrigðisyfirvöldum fullkomlega, mjög vel eða frekar vel, samanborið við 91 prósent í síðustu könnun. 67 prósent treysta ríkisstjórninni fullkomlega, mjög vel eða frekar vel til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19, samanborið við 66 prósent í síðustu könnun.