Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin merki um að gosið sé að gefa eftir

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Nýlegar breytingar á goshegðuninni í Fagradalsfjalli, þar sem ýmist rísa háir kvikustrókar upp úr gígnum eða strókavirkni liggur niðri, virðast ekki hafa haft merkjanleg áhrif á hraunrennslið, að minnsta kosti ekki enn, samkvæmt nýjustu hraunrennslismælingum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Rennsli hrauns síðustu vikuna hefur að meðaltali verið 7,5 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið hefur verið heldur meira en í síðustu viku en svipað og í vikunni þar á undan. Jarðvísindastofnun segir engin merki um að gosið sé að gefa eftir.   

Rúmmál gosefna er nú orðið 23 milljón rúmmetrar og flatarmál hraunsins 1,41 ferkílómetrar. Mesta breytingin síðustu vikuna er í dældinni milli Stórahrúts og hnjúkanna austan Geldingadala og í tungunni þaðan niður í Meradali.

Ekki er hægt að segja til um það hve lengi gosið gæti staðið, en búast má við að þróun hraunrennslis gefi vísbendingar um það þegar fram í sækir.

„Samanburður við önnur gos sýnir að rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967. Gosin eru þó ekki alveg sambærileg, því fyrstu vikur Surtseyjargossins var streymi kviku til yfirborðs margfalt meira. Rennslið við Geldingadali er um 5% af meðalrennsli í Holuhrauni þá sex mánuði sem það gos stóð, frá september 2014 til loka febrúar 2015,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar.