Eldsumbrot þemað í nýjum varabúningum Grindavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: UMFG - Twitter

Eldsumbrot þemað í nýjum varabúningum Grindavíkur

04.05.2021 - 14:10
Eldsumbrotin í Geldingadölum eru innblásturinn í hönnun á nýjum varabúningi fótboltaliða Grindavíkur.

Grindavík hefur til fjölda ára leikið í bláum varabúningum en í tilefni af eldsumbrotunum sem hafa átt sér stað í nálægð við Grindavík var ákveðið að reyna að tengja nýjan búning við náttúruöflin sem eru allt í kringum okkur.

Í tilkynningu frá Grindavík um hönnunina segir: 

„Þemað í búningnum er nýstorknað hraun sem flæðir fram með kröftugan kvikugang beggja vegna. Bleiki liturinn vísar til rauðglóandi skýjaþoku sem hvílir yfir bænum að næturlagi. Búningurinn rammar vel inn þann nýja veruleika sem blasir daglega við okkur Grindvíkingum en veitir okkur kraft, eldmóð og hugrekki.“

Kvennalið Grindavíkur mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ á fimmtudagskvöld en karlaliðið hefur leik í Lengjudeildinni á föstudagskvöld þegar ÍBV mætir í heimsókn til Grindavíkur. Nýja varabúninginn má sjá í myndbandinu hér að neðan.