Ekki allir forgangshópar skilað sér

04.05.2021 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þúsundir hafa síðustu dag haft samband við heilsugæsluna og gert athugasemdir við að hafa ekki fengið boð í bólusetningu. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hvetur fólk til að sýna þolinmæði en viðurkennir að ekki hafi allir forgangshópar skilað sér, það skrifist á Landlæknisembættið.

 

„Það sýnir sig alveg að þetta kerfi er ekki fullkomið, það er reyndar embætti Landlæknis sem tekur út þessa lista en það er alveg rétt að sumir hópar sem við hefðum gjarnan viljað sjá í forgangi hafa ekki skilað sér. Við bara biðlum til fólks að sýna okkur þolinmæði við erum að reyna eins hratt og við getum að vinna okkur niður alla þessa hópa og tökum öllum ábendingum.“

„Getum ekki unnið hraðar en við fáum upplýsingar“

Sigríður segir að fyrst í morgun hafi borist listi yfir unglinga í áhættuhópi. „Ungt fólk sem er þá 16-17 ára, við vinnum þetta eins hratt og við getum en við getum ekki unnið hraðar en við fáum upplýsingarnar.“

Síðustu daga hafa borist mörgþúsund ábendingar á dag frá fólki sem er ósátt við forgangsröðunina. Hvert getur fólk leitað ef það telur sig réttilega eiga að vera búið að fá boð? „Við erum alltaf að upplýsa heilsugæslustöðvarnar um að halda utan um alla þá sem eiga að vera í forgangi og eru ekki búnir að fá boð, þau halda utan um skjal sem við fáum svo vikulega þannig að best er að hafa samband við sína heilsugæslustöð og þá er hvert og eitt erindi metið.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV