Skólahreysti hefst með látum á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Skólahreysti

Skólahreysti hefst með látum á Akureyri

03.05.2021 - 16:12
Skólahreysti hefur göngu sína á ný þriðjudaginn 4. maí með tveimur beinum útsendingum frá Akureyri, klukkan 17 og klukkan 20. Skólarnir sem keppa eru 18 talsins, allir á Norður- og Austurlandi.

Skólahreysti er fyrir löngu orðinn rótgróinn partur af íþróttalífi grunnskólanna í landinu. Fyrsta keppnin fór fram fyrir 16 árum, árið 2005. Að þessu sinni verða allar undankeppnirnar í beinni útsendingu á RÚV, 4. maí, 11. maí og 12. maí, og svo verða úrslitin sjálf 29. maí. 

Í Skólahreysti keppa fjórir fulltrúar frá hverjum skóla í þrautum sem reyna á þol og styrk. Strákar keppa í upphífingum og dýfum, stelpur keppa í armbeygjum og hreystigreip þar sem markmiðið er að hanga sem lengst á járnstöng. Lið skipað stelpu og strák fer svo í gegnum hraðþrautina þar sem krakkarnir þurfa að hoppa, hlaupa, skríða og lyfta áður en þau enda á að fara upp kaðal. 

Í fyrri riðli þriðjudagsins, klukkan 17, mæta Árskóli, Blönduskóli, Egilsstaðaskóli, Grunnskólinn á Þórshöfn, Grunnskólinn austan Vatna, Grunnskóli Fjallabyggðar, Húnavallaskóli og Nesskóli til keppni. Í seinni riðlinum, sem hefst klukkan 20, mæta svo krakkar úr Brekkuskóla, Dalvíkurskóla, Giljaskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Naustaskóla, Oddeyrarskóla, Þelamerkurskóla, Valsárskóla og Varmahlíðarskóla. 

Sigurvegari síðasta árs í Skólahreysti er Lindaskóli í Kópavogi. Sigurinn var þó naumur því aðeins munaði einu stigi á skólunum í tveimur efstu sætunum, Lindaskóla og Holtaskóla í Keflavík.

Beinar útsendingar frá fyrstu tveimur undanriðlum Skólahreysti verða á RÚV á morgun, þriðjudag, klukkan 17 og klukkan 20.