Samfélagslegt vandamál og hluti af menningunni

Mynd: RÚV / RÚV
Það er ekki nóg að byggja upp eftirlit og varnir gegn peningaþvætti heldur þarf að breyta sumum þáttum í menningu okkar til að árangur náistd, segir Birgir Jónasson, lögfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann segir að peningaþvætti sé samfélagslegt vandamál um allan heim og þar dugi ekki að kalla á aðgerðir stjórnvalda

„Þetta er ekki bara viðfangsefni lögreglu eða yfirvalda, þetta er viðfangsefni samfélagsins,“ sagði Birgir á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Ísland var sett á gráan lista vegna skorts á vörnum við peningaþvætti og hafa stjórnvöld síðan unnið að því að herða eftirlit á nokkrum sviðum. Samkvæmt nýju áhættumati ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur dregið úr áhættu vegna nokkurra þátta frá 2019 en aðrir hafa staðið í stað. 

Birgir segir að í gegnum árin hafi skort á að varnir gegn peningaþvætti hafi verið teknar nógu alvarlega. Brugðist hafi verið við þegar Ísland lenti á gráum lista en enn sé nokkuð í land. Fleira þurfi en reglur og eftirlit. „Það er dálítið greypt í okkar menningu margt sem við þurfum að bæta. “ Að auki þurfi yfirvöld að vera á tánum vegna nýrrar tækni sem getur af sér nýjar ógnir. 

Norski bankinn DNB fékk háa sekt frá norska fjármálaeftirlitinu vegna slælegrar framkvæmdar laga um eftirlit með peningaþvætti, meðal annars í tengslum við fyrirtæki í eigu Samherja. „Það hafa svo sem verið vísbendingar um að varnir gegn peningaþvætti annars staðar á Norðurlöndum hafi ekki verið fullnægjandi. Það eru ekki vísbendingar um það hérna á Íslandi.“ Birgir segir að það skýrist að hluta vegna þess að íslensku bankarnir eru ekki með starfsemi erlendis. Sú hætta gæti þó aukist hefji íslensku bankarnir starfsemi erlendis. „Það er ákveðin eðlislæg áhætta fólgin í því að vera með starfsemi yfir landamæri. Það gæti gerst. Það er ekki algjört samband þarna á milli en það má þó reikna með því.“