Neitað allt að 17 sinnum um pláss á hjúkrunarheimili

Mynd: RÚV / Skjáskot
Dæmi eru um að fólki sem er í sárri þörf fyrir að komast á hjúkrunarheimili sé hafnað margsinnis vegna þess að það er á dýrum lyfjum eða þarf mikla hjúkrun. Gerðar hafa verið athugasemdir við þetta við heilbrigðisyfirvöld. Formaður færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins segir að með þessu séu hjúkrunarheimilin ekki að uppfylla samning sinn við Sjúkratryggingar.

Á hverjum tíma eru 200-300 manns með gilt færni- og heilsumat fyrir varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Margt af þessu fólki bíður á ýmsum deildum Landspítala og þegar pláss losnar á hjúkrunarheimili tilnefnir færni- og heilsumatsnefnd á svæðinu tvo einstaklinga í plássið sem metnir eru í mestri þörf fyrir það. Heimilið velur síðan á milli þessara tveggja. 

Pálmi V. Jónsson er formaður færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins. „Við höfum tekið eftir því núna á undanförnum mánuðum, jafnvel einu til tveimur árum, að það virðist vera að ákveðnir einstaklingar séu sniðgengnir þegar kemur að því að veita þeim varanlega dvöl. Það birtist þá í því að síendurtekið er gengið fram hjá þeim þegar þeir eru tilnefndir sem einn aðili af tveimur þegar rými opnast,“ segir Pálmi.

Hann segir að þetta sé ekki bundið við eitthvert eitt hjúkrunarheimili en eigi þó ekki við um þau öll. „Við höfum áhyggjur af þessu skjólstæðinganna vegna.“

Pálmi segir að þetta gerist helst hjá þeim sem dvelja á Landspítala en þeir séu almennt veikari en þeir sem bíði heima hjá sér eftir plássi. „Við höfum séð að það virðist vera að þetta eigi við um þá sem eru heldur yngri og þá sem virðast hafa mjög alvarlega sjúkdóma eða vera á flóknum lyfjum.“

Að mati Pálma er þetta brot á samningum opinberra aðila við hjúkrunarheimilin. „Því að þar segir eitthvað á þá leið að að jafnaði skuli þeir ganga fyrir sem beðið hafa lengst. Og þegar búið er að ganga framhjá manneskju í mörg skipti þá fer klukkan að tikka.“

Greiðslufyrirkomulagið er með þeim hætti að fólk er metið í þjónustuflokka eftir heilsufari og þörf fyrir þjónustu. Eftir því sem fólk er í hærri þjónustuflokki, því meira er greitt fyrir það til hjúkrunarheimilanna, að sögn Pálma.

Við heyrum hvað stofnanirnar eru að tala um; fjárskort og annað slíkt og ég ætla ekkert að blanda mér í þá umræðu. Hins vegar finnst manni ekki eðlilegt að einstakir einstaklingar séu teknir sem gíslar í slíkum samningamálum.

Pálmi segir að nefndin hafi gert athugasemdir vegna þessa við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis og Sjúkratryggingar. Hann telji að þar séu áhyggjur af þessari þróun. „En þau reyndu í ráðuneytinu að koma með drög að reglugerð sem síðan var tekin til baka og hefur ekki litið dagsins ljós ennþá.“

Hversu oft er fólki hafnað á þennan hátt sem þú ert að lýsa og hversu lengi gæti það þurft að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili?  „Við höfum séð allt upp í 15-17 sinnum að einhverjum hafi verið hafnað.  Við höfum séð að fólk er að bíða lengur en ár, á annað ár, og sumum endist ekki aldur til að komast inn á hjúkrunarheimili.“

Það sem þú ert að lýsa núna: að hjúkrunarheimilin hafni því að taka inn fólk sem þarf mikla umönnun og talið vera þyngri sjúklingar en aðrir; er þetta löglegt? „Ég er ekki lögfræðingur og skal ekki dæma um það. En okkur sýnist að þetta hljóti að vera brot á þessum samningum sem eru þó á milli þessara aðila, þeirra sem kaupa þjónustuna og selja. Siðferðilega finnst manni þetta heldur ekki rétt.“