Minnst 26 fórust í árekstri hraðbáts og flutningapramma

03.05.2021 - 06:45
Erlent · Asía · Bangladess
Mynd með færslu
 Mynd: Neo - Wikipedia
Minnst 26 fórust í árekstri fólksflutningabáts og sandflutningapramma í Bangladess í morgun, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Slysið varð á ánni Padma, nærri bænum Shibchar, inni í miðju landi. AFP-fréttastofan hefur eftir Miraz Hossain, lögreglustjóra í Shibchar, að fimm manns hefði verið bjargað lífs úr ánni og lík 26 til viðbótar hefðu fundist eftir árekstur skipanna.

Á fjórða tug manna voru um borð í hraðskreiðum fólksflutningabát sem af einhverjum ástæðum skall á sandflutningaprammanum á mikilli ferð. Hraðbáturinn skemmdist mikið við ásiglinguna og sökk nær samstundis. Leit heldur áfram í fljótinu þar sem ekki er vitað með vissu hversu mörg voru um borð í bátnum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV