Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lýsti miklum áhyggjum af verðbólgu og greiðslubyrði

03.05.2021 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, lýsti miklum áhyggjum af verðbólgu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Verðbólga mældist meiri í síðasta mánuði en nokkru sinni síðan snemma árs 2013. Jón Steindór spurði forsætisráðherra út í mat hennar og viðbrögð við verðbólgunni.

„Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst stefna í verulegt óefni. Sjaldan hefur jafn mikill fjöldi ungs fólks streymt inn á fasteignamarkaðinn og ég hef miklar áhyggjur af því að vaxtabyrðin, greiðslubyrðin, verði miklu meiri en lántakendur hafa reiknað með,“ sagði Jón Steindór. 

Þessu brást Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við: „Mér þótti háttvirtur þingmaður verða helst til dramatískur í síðari spurningu. Staðreyndin er sú að tekist hefur gríðarlega vel upp við stjórn efnahagsmála á þessu kjörtímabili, hvort sem litið er til peningastefnu, stjórnar ríkisfjármála eða á vinnumarkaði,“ sagði Katrín. Hún sagði þó mikilvægt að tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og að það mál yrði tekið upp á næsta fundi þjóðhagsráðs. Að auki mætti gera ráð fyrir að gengisstyrking á næstunni leiddi til lækkunar vöruverðs.