Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lokuðu fjölsóttum vef með barnaníði

03.05.2021 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þýska lögreglan hefur upprætt umfangsmikinn barnaníðsvef þar sem yfir fjögur hundruð þúsund manns skiptust á ólöglegu myndefni. Fjórir eru í haldi vegna málsins.

Þýska alríkislögreglan greindi frá málinu í dag. Þar kemur fram að barnaníðsvefurinn Boystown hafi verið starfræktur á djúpnetinu svonefnda frá 2019. Þar skiptust yfir fjögur hundruð þúsund manns á myndum og myndskeiðum þar sem níðst var kynferðislega á börnum, einkum kornungum drengjum. Á vefnum gátu notendurnir verið í samskiptum hverjir við aðra á spjallrásum. Þeim hefur einnig verið lokað.

Rannsókn þýsku lögreglunnar á starfseminni hefur staðið mánuðum saman í samvinnu við Evrópulögregluna Europol og lögregluembætti í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Kanada. Fjórir karlmenn voru handteknir um miðjan síðasta mánuð, þrír í Þýskalandi og þýskur ríkisborgari, búsettur í Paragvæ. Þrír þeirra stjórnuðu vefnum, önnuðust tæknimál og gáfu notendunum ráð, meðal annars um hvernig þeir ættu að komast hjá því að yfirvöld uppgötvuðu hvað þeir væru að aðhafast. Sá fjórði var umfangsmikill notandi í Hamborg. Húsleit var gerð vegna rannsóknarinnar á sjö stöðum víðs vegar í Þýskalandi. 

Djúpnetið er óaðgengilegt flestum netnotendum. Inn á það er ekki hægt að komast nema með dulkóðun. Á því athafna glæpamenn sig, meðal annars í fíkniefnaviðskiptum, við vopnasölu og með því að skiptast á myndefni þar sem níðst er á börnum.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV