Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

COVID-19 smit um 20 milljónir á Indlandi

03.05.2021 - 16:29
epa09172028 A suspected COVID-19 patient receives oxygen supply at a Sikh shrine, or gurdwara, where oxygen is made available for free by various Sikh religious organizations in New Delhi, India, 01 May 2021. The country has reported a record number of 400,000 new COVID-19 cases in one day.  EPA-EFE/IDREES MOHAMMED
 Mynd: EPA-EFE - EPA
COVID-19 smit á Indlandi nálgast tuttugu milljónir. Stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nógu vel við ástandinu. 

Tilkynnt var um hátt í 400 þúsund ný smit og tæplega 3.700 dauðsföll á Indlandi í gær. Smitum hefur því fjölgað um nær átta milljónir síðan í marslok.

Ástandið á sjúkrahúsum landsins er afar slæmt þótt aðstoð sé farin að berast frá erlendum ríkjum. Bretar ætla til að mynda að senda þangað eitt þúsund öndunarvélar til að bæta úr brýnni þörf. Súrefnisbirgðir á sjúkrahúsum og í sjúkrabílum eru einnig af skornum skammti. Brugðið hefur verið á það ráð að fá súrefni í stálverksmiðjum sem sent er með járnbrautarlestum til sjúkrahúsanna.

Þrýstingur eykst stöðugt á Narenda Modi forsætisráðherra og stjórn hans að herða aðgerðir til að draga úr smitum, meðal annars með því að banna leiki í úrvalsdeildinni í krikket. Það hefur enn ekki verið gert þar sem stjórnendur hennar segjast tapa háum fjárhæðum verði gripið til þess. Einum leik var þó aflýst í dag, þegar tveir leikmenn reyndust smitaðir þrátt fyrir sóttvarnaráðstafanir í þeirra hópi. 

Narenda Modi og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddust við í síma í dag um ástandið. Í yfirlýsingu frá forsætisráðherraskrifstofunni segir að Modi hafi þakkað fyrir hve skjótt Evrópuríki brugðust við annarri bylgju COVID-19 á Indlandi.