Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bretar senda 1.000 öndunarvélar til Indlands

03.05.2021 - 04:43
epa09174222 Special equipment is loaded onto an airplane prior the departure of an Italian team of specialised staff along with an oxygen production system to COVID-ravaged India, at Caselle airport, Turin, Italy, 02 May 2021. Italian Prime Minister Draghi on 28 April that Italy would provbide support to India that is suffering from shortage of oxzgen for Covid-19 patients.  EPA-EFE/Jessica Pasqualon
Ítalir sendu Indverjum tækjabúnað til súrefnisframleiðslu ásamt sérhæfðu starfsliði, sem setja mun búnaðinn upp og leiðbeina kollegum sínum á Indlandi um notkun hans. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Bretar ætla að senda 1.000 öndunarvélar til Indlands, þar sem algjört neyðarástand ríkir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þar deyja þúsundir úr COVID-19 á degi hverjum og yfir 300.000 ný tilfelli hafa greinst þar daglega ellefu daga í röð. Mikill hörgull er á öndunarvélum, súrefnisbirgðum, lyfjum og öðrum lækningavörum auk þess sem bóluefni eru víða af skornum skammti þrátt fyrir mikla bóluefnaframleiðslu í landinu.

Bretar hafa þegar sent 200 öndunarvélar og tilheyrandi súrefniskúta til Indlands og neyðaraðstoð frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Ítalíu og fleiri ríkjum er ýmist komin til landsins eða væntanleg á næstu dögum og vikum.

Skortur á súrefnisbirgðum hefur þegar kostað fjölda mannslífa á Indlandi og takmarkast þau ekki við COVID-19 sjúklinga. Minnst 12 sjúklingar létust á stóru sjúkrahúsi í höfuðborginni Nýju Delí þegar súrefnisbirgðir þess gengu til þurrðar.

Súrefnisbirgðir eru af hættulega skornum skammti á fjölda sjúkrahúsa um allt Indland, segir í frétt BBC, og fólk sem þarf á súrefni að halda í daglegu lífi þarf að standa í biðröð hálfu dagana eftir áfyllingu á súrefniskúta sína.

Yfirréttur Delí snuprar stjórnvöld

Talsmenn yfirvalda segja engan skort á súrefnisbirgðum, heldur liggi vandinn í dreifingu þeirra. Þetta telja dómarar við yfirrétt Delí-borgar ekki ásættanlega skýringu og segja nóg komið af pólitísku orðaskaki og undanbrögðum. Í úrskurði dómstólsins segir að ríkisstjórnin verði að bregðast við og koma þessum málum í rétt horf án tafar. Stjórnin hafi gefið fyrirmæli um úthlutun súrefnisbirgða og hún verði að sjá til þess að farið verði eftir þeim.