Bandaríkin taka við mun fleiri flóttamönnum en stóð til

03.05.2021 - 22:32
epa09166677 US President Joe Biden addresses a joint session of Congress, with Vice President Kamala Harris and House Speaker Nancy Pelosi (D-Calif.) sitting behind him, at the Capitol in Washington, DC, USA, 28 April 2021. The speech was Biden's first since taking office in January.  EPA-EFE/MELINA MARA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The Washington Post POOL
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að hann myndi margfalda fjölda þeirra flóttamanna sem hleypt yrði til landsins á þessu ári. Forsetinn hafði verið gagnrýndur harðlega fyrir að ætla að halda sig við þann fjölda sem forveri hans í embætti hafði miðað við, 15 þúsund flóttamenn, og tilkynnti í dag að hámarkið yrði þess í stað 62.000 manns.

„Þessi ákvörðun fellir úr gildi sögulega lágt hámark síðustu ríkisstjórnar sem endurspeglaði engan veginn gildi þjóðar sem býður velkomna og styður við bakið á flóttamönnum,“ sagði Biden í yfirlýsingu í dag og að stefnt væri að því að hækka svo töluna enn frekar á næsta ári, upp í 125 þúsund flóttamenn. 

Biden hafði áður sagt að hann þyrfti meiri tíma til þess að breyta stefnunni og þess vegna yrði lágu viðmiði fyrri ríkisstjórnar viðhaldið fyrst um sinn. Það þótti í trássi við kosningaloforð hans um að endurvekja gildi Bandaríkjanna.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV