Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sameiginleg áfallastreituröskun svartra Bandaríkjamanna

Mynd: Amazon / Amazon

Sameiginleg áfallastreituröskun svartra Bandaríkjamanna

02.05.2021 - 14:00

Höfundar

Katrín Guðmundsdóttir gagnrýnandi Lestarinnar fjallar um hrollvekjuþættina Them. Þeir segja frá tímum „brottflutninganna miklu“ þegar um sex milljónir svartra Bandaríkjamanna hröktust frá Suðurríkjunum til annarra hluta landsins á síðustu öld.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Á árunum 1916-1970 fluttu um það bil sex milljónir svartra Bandaríkjamanna búferlum frá Suðurríkjunum til annarra hluta landsins vegna ofsókna og ofbeldis af hálfu hvítra þjóðernissinna. Í þessum brottflutningum, sem alla jafna ganga undir heitinu brottflutningarnir miklu, löðuðust margar fjölskyldur að Kaliforníu vegna loforða um fjölbreytt atvinnutækifæri í ört vaxandi iðnaðarborgum ríkisins.

Sjónvarpsþáttaröðin Them, sem var nýlega aðgengileg í streymisveitu Amazon, fjallar um þessa atburði út frá sjónarhorni svartrar fjölskyldu sem er hrakin á brott frá Norður-Karólínu til Compton í Los Angeles, þar sem hún hyggst hefja nýtt líf eftir að hafa orðið fyrir hrottafengnum hatursglæp. Draumar um góðvild og umburðarlyndi snúast hins vegar upp í andhverfu sína þegar í ljós kemur að rasískir íbúarnir eru tilbúnir að gera hvað sem er til að halda hverfinu hvítu.

Þættirnir hafa vakið talsverða athygli vestanhafs fyrir afdráttarlausa framsetningu á kynþáttafordómum eins og þeir kunna að hafa verið á sjötta áratugnum. Svo hispurslausir eru þeir að sumum þykir um of enda er málefnið sérlega viðkvæmt um þessar mundir í ljósi Black lives matter-hreyfingarinnar sem byggist þó vissulega á meini sem þrifist hefur í landinu frá því löngu fyrir stofnun sambandsríkjanna. Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að fullyrða að uppbygging þeirra sé að miklu leyti byggð á þessu sama meini.

Them er hrollvekja sem segir í tíu hlutum frá tíu dögum í lífi fjölskyldunnar á nýja staðnum. Þættirnir sækja innblástur í nokkra af helstu höfundum hefðarinnar, til að mynda Alfred Hitchcock og Stanley Kubrick, en auk þess má sjá áhrif frá American Horror Story-sjónvarpsbálknum og fjöllistamanninum David Lynch. Stærsti áhrifavaldurinn er þó augljóslega leikstjórinn Jordan Peele sem hristi svo hressilega upp í bandarískum kvikmyndaiðnaði með hryllingsmyndunum Get Out árið 2017 og Us tveimur 2019.

Það er erfitt að horfa fram hjá líkindum þáttanna með verkum Peeles en svo augljós eru þau að maður veltir því fyrir sér hvort höfundareinkenni hans hafi hreinlega hrundið af stað nýrri bylgju innan hryllingsgreinarinnar. Eins konar kynþáttahyggjuhryllingi? Í bókmenntafræðum er hugtakið framandgerving notað þegar vanabundin fyrirbæri eru gerð framandleg til að áhorfendur sjái veruleika sinn í nýju ljósi. Í þessu tilviki væri því kannski hægt að tala um hryllingsgervingu að hætti Peeles þar sem vanabundin kynþáttahyggja er gerð að hryllingi til þess að áhorfendur sjái veruleika sinn í nýju ljósi.

Samhliða Black lives matter-hreyfingunni hefur stundum verið talað um sameiginlega áfallastreituröskun svarta Bandaríkjamanna sem á sér meðal annars upptök í arðráni hvítra þrælahaldara á fjölbreyttri menningu þræla frá Afríku. Þessi áfallastreituröskun er meginþemað í Them og birtist til að mynda í táknrænni notkun á „blackface“, ógeðfelldum minnisvarða um hvernig hvítir þjóðernissinnar afskræmdu sjálfsmynd svartra á tímum aðskilnaðarstefnu Jims Crow og hagnýttu sjálfum sér til framdráttar.

Önnur viðfangsefni eru kristin trúarbrögð, hvítir fegurðarstaðlar, bandarískt menntakerfi, stéttarstaða svartra, passív kynþáttahyggja, kerfishyggja, spillt lögregla og ítök feðraveldisins og í rauninni bara flest allt sem heldur niðri áhrifum svartra í samfélaginu og viðheldur yfirráðum hvítra. Snert er á aðdragandanum að strætósniðgöngunum í Montgomery, mótmælunum frægu sem eru gjarnan kennd við Rósu Parks, sem og tildrögunum að réttindabaráttunni sögulegu sem Martin Luther King varí forsvari fyrir á sjötta og sjöunda áratugnum. Þá fá áhorfendur einnig innsýn í lítt þekkta sögu svartra hermanna í seinni heimsstyrjöldinni, þar sem þeir máttu ekki nota skotvopn og voru notaðir sem tilraunadýr fyrir sinnepsgas í þakklætisskyni fyrir þjónustu sína.

Hin hefðbundna hrollvekja, eins og hún birtist okkur í meginstraumskvikmyndum, er svo búin til með listrænum áherslum í myndatöku, leikmynd og hljóðvinnslu. Líðandi kranaskot af ögrandi hópamyndun íbúa í hverfinu gagnstætt hinni svörtu kjarnafjölskyldu endurspegla jaðarsetningu þeirra í þjóðfélaginu og langar hægmyndir af stingandi augnaráði þeirra hvítu gefa áhorfendum tilfinningu fyrir því hvernig er að vera óvelkominn á eigin heimili. Það leikur alla vega enginn vafi á að flestir áhorfendur upplifa sjónarhorn hins svarta mjög sterkt, hvert svo sem litarhaft þeirra er.

Andstæður í leikmyndinni ýta undir þessi tilfinningatengsl, þar sem heimili hinna hvítu eru myrk, uppstillt og máluð í köldum litum á meðan heimili hinna svörtu eru björt, litrík og full af lífi og gleði. Gamlar og snjáðar upptökur af dægurlögum frá sjötta áratugnum veita atburðunum síðan ásækjandi yfirbragð sem fær hárin til að rísa. Raunar sýna þættirnir okkur hversu auðvelt er að stýra viðtökum áhorfenda með tæknilegri vinnu, því afurðin er svo sannarlega hrollvekjandi.

Þrátt fyrir skýrt þema og listræna sýn sem dregur fram mikilvægi þemans sem þættirnir standa fyrir er sagan sjálf hins vegar ekki alveg nógu sterk. Atburðarásin er á köflum dálítið ruglingsleg, ekki síst vegna þess hve yfirfull hún er af bæði undirsögum og lausum þráðum sem verður til þess að áhorfið er dálítið langdregið. Að því sögðu á Them kannski meira skylt við myndlist en hefðbundna frásagnarlist, þar sem áhersla er fremur lögð á að vekja upp tilfinningar og kalla fram vitundarvakningu hjá áhorfendum en að fylgja einhverjum sérstökum strúktúr.

Them hafa ekki aðeins vakið athygli fyrir óheflaða framsetningu á kynþáttahyggjunni sem var við lýði í Bandaríkjunum á sjötta áratugnum heldur hafa þættirnir einnig verið gagnrýndir fyrir að rjúfa tengingu fólks við kynþáttahyggju samtímans, sem þrífst þar enn eins og lögregluofbeldi síðustu ára hefur til að mynda sýnt fram á. Þá hefur einnig verið bent á hversu ólíðandi það er að bandarískur kvikmyndaiðnaður, sem er vissulega enn undir stjórn hvítra karla, hagnist ítrekað á misrétti svartra með kvikmyndagerð sem ætlað er að vinna úr sársauka þeirra. 

Þessi gagnrýni er góð og fær mann til þess að hugsa enn meira og hugsanlega dýpra um viðfangsefni þáttanna, sem varðar alls ekki bara Bandaríkjamenn heldur heiminn allan. List á að vekja upp tilfinningar í brjósti fólks og þær tilfinningar þurfa alls ekki að vera jákvæðar. Mannréttindabrot hvítra þjóðernissinna á svörtu fólki eru svo umfangsmikil og söguleg að það þarf pottþétt margar tilraunir af pólitískum og listrænum toga til að græða sárin. Eflaust er engin ein leið rétt í þeim efnum en viðleitnin hlýtur þó að vera mikilvægust og hún er svo sannarlega til staðar í sjónvarpsþáttaröðinni Them.