Reyna að skilja kverkaskítinn í eldgosinu

02.05.2021 - 18:29
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Vísindamenn voru við rannsóknir við eldgosið í dag til að reyna að átta sig á því hvað útskýrir þá breyttu virkni sem hefur átt sér stað undanfarinn tæpa sólarhring. Meðal annars var notast við dróna við þær rannsóknir.

Þegar kvikustreymið gefur eftir og gígurinn gýs ekki af krafti reyna vísindamenn að koma dróna nær gígopinu til að kanna hvort að einhverjar skýringar sjáist á þessarri breytti virkni. 

„Ætli hann sé ekki kominn með meira af gasi í sér. Það eru einhverjar þrengingar eða pokar þarna niðri. Það er líka meira af vatni í kvikunni. Við erum búin að vera að sjá meira af kalíum í kvikunni,  vatnið fylgir yfirleitt kalíum. Vatnið er kröftugasta gasið þegar við erum að horfa á kvikuna koma út úr gígunum,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.

Hann segir að þessi breyting sé ekki óvenjulega, þvert á móti. Fram til þessa hafi virknin í gosinu í raun og veru verið óvenjuleg.

„Núna er hann að færast nær því sem við þekkjum annarsstaða, t.d. á Hawaii og Réunion eyju og fleiri stöðum,“ segir Ármann.

Hann segir að þó svo að sveiflurnar  sé nokkrar þýði það ekki endilega að heildargosvirknin sé að minnka.

„Þó að það dragi niður í einhverjar 1-2 mínútur þá kemur hann upp af helmingi meiri krafti á eftir, svo meðaltalið er alveg það sama, það er ekkert að breytast.

Viðtal Hólmfríðar Dagnýjar Friðjónsdóttur við Ármann Höskuldsson má sjá hér að ofan.