Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ofsabræði og gagnkvæm ást í bók sem alltaf á erindi

Mynd með færslu
 Mynd: - - Dimma

Ofsabræði og gagnkvæm ást í bók sem alltaf á erindi

02.05.2021 - 09:00

Höfundar

Skáldsagan Dyrnar, eftir ungversku skáldkonuna Mögdu Szabó, fær okkur til að hugsa um tilveruna með öðrum hætti, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Íslensku þýðingaverðlaunin voru veitt á dögunum og komu þau að þessu sinni í hlut Guðrúnar Hannesdóttur fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Mögdu Szabó sem í dag er einn virtasti höfundur á ungverska tungu frá síðustu öld, þótt hún hafi lengi þurft að hvíla í skugga alræðis kommúnista þar í landi. Hún fæddist 1917 og lést árið 2007, en þessi saga er frá árinu 1987. Þýðingin er ekki beint upp úr frummálinu, en hún var borin saman við frumtextann af Veroniku Egyed og stendur sem skáldverk á íslensku fyrir sínu og vel það. Verkið hefur hlotið mikið lof eftir að það fór að koma út á Vesturlöndum á þessari öld og eftir lesturinn get ég sagt fyrir mig að það er fyllilega verðskuldað.

Í sögunni eru tvær konur í aðalhlutverkum og er sagan sögð í fyrstu persónu og byggir að einhverju leyti á ævi Szabó, eins og fram kemur í eftirmála þýðanda um höfundinn. Sögukonan er rithöfundur, eins og eiginmaður hennar, eða hann vinnur a.m.k. að ritstörfum, það kemur ekki nánar fram, en þau starfa bæði alla daga við ritvélar sínar. Í upphafi sögu ræður hún heimilishjálpina Emerönsu til starfa sem sannarlega er kona af stóru sniði, þótt hún sé nánast ólæs og óskrifandi. Samskipti þeirra eru átakasöm allan tímann, en um leið eru þær háðar hvor annarri, elska hvor aðra eins og tekið er fram oftar en einu sinni. Emeransa tekur að vissu leyti völdin í lífi þeirra hjóna, án þess þó að þau þurfi beinlínis að beygja sig undir hana; þau vinna áfram að ritstörfum sínum og sögukonan slær meira að segja í gegn, hlýtur einhver merkileg verðlaun og verður nánast einhvers konar menningarsendiherra þjóðar sinnar.

En þótt sagan segi fyrst og fremst sögu þessara tveggja kvenna þá endurspegla þær ýmsa þætti tuttugustu aldar með snilldarlegum hætti; saga Emerönsu afhjúpast smám saman í framvindunni og við blasir stórbrotin kona, skaphörð og raunar á stundum ofsafengin í lund, en samtímis tilbúin að fórna öllu fyrir mennskuna, sama hvaða fyrirlitlegu snatar stýra landinu, hvort það eru samlandar hennar fyrir stríð, nasistar, eða kommúnistar eftir stríðið. Skoðanir hennar eru alltaf afdráttarlausar, en hún á sér vini sem styðja hana, meira að segja hjá lögreglunni og hún fær að vera í friði með viðhorf sín, enda koma þau einungis fram meðal þeirra sem hana þekkja. En margir hefðu verið handteknir í Ungverjalandi kommúnismans fyrir að vera eins og hún.

Persónugalleríið í kringum þær er líka litríkt, fólkið í götunni, eða hverfinu þar sem þær búa báðar, en Emeransa er húsvörður í byggingu í grennd við hús sögukonunnar og hún vinnur meðal annars fyrir sér með því að sópa snjó og lauf frá húsum fólks í hverfinu. Hún er margra manna maki og hefur sá eiginleiki hennar á sér blæ töfraraunsæis, enda er þess þörf þegar um svo stórbrotinn karakter er að ræða. Mikilvæg persóna, ef svo mætti segja, er síðan hundurinn Fjóla, sem er rakki þrátt fyrir nafnið, en sögukonan fann lítinn hvolp nánast dauðan í snjónum og bjargar honum. Emeransa tekur þessu litla fórnarlambi tveim höndum og verður í raun húsbóndi hans, þótt hann búi hjá þeim hjónum. Fjóla leikur stórt hlutverk í samskiptum þeirra og virkar stundum eins og tenging milli kvennanna þegar orð duga ekki lengur til.

Eins og titillinn ber með sér eru dyr, raunar dyrnar að heimili Emerönsu, mikilvægt tákn í sögunni, þær standa fyrir það sem er algjörlega einkalegt að mati Emerönsu og um leið um alla þá leyndardóma sem hver manneskja geymir innra með sér, merkilega sem ómerkilega. Enginn fær að koma inn um dyrnar að húsvarðaríbúðinni, heimili Emerönsu, ekki einu sinni sögukonan sem hún elskar, utan einu sinni, en hún verður þá að vera þögul sem gröfin um það sem hún sér. Dyrnar eru svo í aðalhlutverki í dramatísku lokauppgjöri verksins, þegar samfélagið brýst inn um þær með ofbeldi af ástæðum sem ekki verða tilteknar hér. Á bak við aðrar dyr í íbúðinni eru svo aðrar dyr, að heimi sem er glæsilegur í algjörum forgengileika sínum.

Persóna Emerönsu er í krafti sínum og viðnámi gegn viðteknum hugmyndum ein af erkitýpum bókmenntanna, manni dettur í hug Don Kíkóti sjálfur, eða Bartleby skrifari, Ahab skipstjóri, Bjartur í Sumarhúsum, nú eða Costanza sem birtist í Lygalífi fullorðinna eftir Elenu Ferrante fyrr í vetur. Vitaskuld eins ólíkar persónur og þær eru margar, en þær búa um leið yfir einhverjum ósveigjanleika sem gerir þær aðdáunarverðar og nánast ómannlegar í breyskleika sínum. Eins og sögukonan förum við lesendur að dá þessa konu sem er bæði óþolandi og stórfengleg í ósveigjanleika sínum. Tryggð hennar er algjör, mennska hennar ótvíræð, rétt eins og hugrekkið. Hér eru engar málamiðlanir gerðar og þótt lesandinn sé stundum, eins og sögukonan, gáttaður yfir framferði hennar er það fullkomlega trúverðugt í persónusköpuninni. Það er ekki heiglum hent að búa til slíkan karakter og gera hann svo sannan og ósvikinn.

Andstæðurnar í sögunni eru líka svo magnaðar í lýsingum höfundar á sínu eigin ergelsi og oft ofsabræði, sem um leið er grundvöllurinn og sönnunin á gagnkvæmri ást kvennanna beggja, ást sem erfitt er að skilgreina, hún er engan veginn kynferðisleg og þær hafna því að hún sé eins og ást mæðgna, systkina, ættingja, jafnvel vina, hún nærist á því að þær fylla upp í eyður hvor annarrar án þess að þær gætu nokkru sinni viðurkennt það. Þessar andstæður skapa mikla spennu og lestraránægju í frásögninni og eftir því sem sögukonan og við lesendur kynnumst Emerönsu betur, því betur skiljum hana án þess að geta nokkru sinni skilið hana á hennar forsendum. Hún baslar svo ekkert við að skilja aðra á þeirra forsendum, er alveg hrein og bein í þeirri afstöðu sinni.

Dyrnar er bók sem alltaf á erindi við okkur, hún fær okkur til að hugsa um tilveruna með öðrum hætti, smám saman áttum við okkur á því að hér er manneskja sem tekur algjöra afstöðu með lífinu og óskar ekki eftir neinni samúð í því verkefni sínu, heldur framkvæmir hið rétta að sínu mati; hún hýsir flóttamenn af öllum sortum og ein undirsagan segir frá hvernig hún fórnaði mannorði sínu í heimaþorpinu með því að þykjast eiga í lausaleik gyðingastúlku sem annars hefði orðið fórnarlamb helfarar gyðinga. Þannig erum við minnt á það hversu miklar fórnir þarf að færa til að taka afstöðu með lífinu, fórnir sem fæstir eru tilbúnir að færa. En það er kannski á kostnað viðurkenningar og þæginda í samfélaginu, því það hefur alltaf tilhneigingu til að verða meðvirkt, hver svo sem heldur um völdin. En þótt við séum flest úr því garni spunnin að þráðurinn slitni þegar á reynir er það gott að hitta þau fyrir sem eru úr sterkara efni, þó það sé einungis í skáldsögu sem er meira en vert að lesa.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Guðrún fékk þýðingarverðlaunin fyrir Dyrnar

Bókmenntir

Dyrnar - Magda Szabó

Bókmenntir

Óræð, raunsæ og líka alveg fráleit skáldsaga