Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Norræn melankólía á Ítalíu

Mynd: SHOWstudio / SHOWstudio

Norræn melankólía á Ítalíu

02.05.2021 - 08:00

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Barði Jóhannsson sendi þann 23. apríl síðastliðinn frá sér plötu með tónlist sem hann samdi fyrir kvikmyndina Agony eftir ítalska kvikmyndaleikstjórann Michele Civetta.

 Myndin átti að fara í kvikmyndahús á síðasta ári en vegna faraldurs var hún sett beint á streymisveitur og hefur verið aðgengileg þar síðan. Tónlistina segir Barði einkennast af norrænni melankólíu og að hún geti vel notið sín ein og sér.

„Músíkin var einhvern veginn þannig að mér fannst hún alveg eiga heima útgefin, geta staðið sér,“ segir Barði Jóhannsson um verkið. „Þannig að ég ákvað að vinna hana áfram eina, tók hana af myndinni, stytti og lagaði líka mixið á henni og svo kom hún út í síðustu viku.“ 

Agony er þriller og fjallar um vansæla fjölskyldukonu í New York sem þarf óvænt að fara til Toskana til að tæma arf eftir móður sína. Þangað komin þarf hún að kljást við sýnir úr gleymdri barnæsku og tekst á við draugalega, rauðklædda konu, en hún býr yfir myrkum leyndarmálum sem leiða til hræðilegra örlöga. „Þetta er mynd sem gerist á Ítalíu, í aðalhlutverki er Asia Argento. Ég er mikill aðdáandi föður hennar, Dario Argento, sem gerði meðal annars myndin Suspira (1977) sem ég hef horft á nokkrum sinnum, og fleiri myndir eftir hann. Það er alltaf óvæntur endir, en myndirnar mjög fallegar, þó svo að leikurinn sé ekki alltaf upp  á það besta, þá eru mjög svona fallegir rammar.“

Nútímalegt skor og leiftur frá liðnum tíma

Norræn melónkólía svífur yfir vötnum í tónlist myndarinnar, en Barði hefur sagt í viðtali að melankólían sé hluti af sínu erfðamengi, sínu DNA. „Það var verið að skrifa um þetta og þá var ég beðinn að lýsa tónlistinni. Það sem leikstjórinn vildi var nútímalegt skor en samt með einhverjum elementum frá níunda áratugnum, stemningu þaðan. Myndatakan er svolítið seventies/eighties á köflum, close-up allt í einu af einhverju, þetta eru einkenni sem voru á vissum tíma í einmitt svona þriller/horror myndum.“

Fjölbreyttur ferill

Barði Jóhannsson (1975) hefur víða komið við á löngum ferli og lengi verið fremstu röð íslenskra tónlistarmanna af sinni kynslóð. Hann stofnaði hljómsveitina Bang Gang í slagtogi við Henrik Baldvin Björnsson árið 1996, síðar gekk Esther Talia Casey til liðs við hljómsveitina. Fjórar plötur hafa komið út undir merkjum hljómsveitarinnar, sú fyrsta, You, kom út árið 1998, og sú síðasta, The Wolves Are Whispering, árið 2015. Barði hefur í gegnum tíðina unnið með fjölmörgum tónlistarmönnum, meðal annars ísraelsku tónlistarkonunni Keren Ann, en saman skipa þau dúettinn Lady & Bird sem gaf út samnefnda plötu árið 2003. Jean-Benoît Dunckel, úr frönsku hljómsveitinni Air, og Barði skipa dúettinn Starwalker, sem gaf meðal annars út samnefnda plötu árið 2016. Barði hefur samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, auk þess sem hann hefur samið fyrir leikhús og starfað sem upptökustjóri. Á meðal kvikmynda sem skarta tónlist Barða má nefna Would You Rather eftir bandaríska leikstjórann David Guy Levy, tónlistina samdi Barði í samvinnu við enska tónlistarmanninn Daniel Hunt úr hljómsveitinni Ladytron, The Finishers eftir franska leikstjórann og leikarann Nils Tavernier, Häxen sem hefur að geyma tónlist Barða við þögla mynd frá árinu 1920 eftir danska leikstjórann Benjamin Christiansen, og Reykjavík-Rotterdam eftir Óskar Jónasson. 

„Ég gerði músík í myndir sem eru einmitt mjög mikið melankólía, ekkert svo þungar endilega myndlega séð, kannski meira svona þungar fyrir manneskjur, eða jafnvel spennumyndir. Mér finnst þetta skemmtilegt. Mín tónlist sem ég hef verið að gera með Bang Gang, Lady & Bird og Keren Ann er melankólísk, þannig að það er gaman að geta líka farið í aðrar áttir. Og í þessari tónlist þá er ég bæði í mínímalísku/klassísku með skrýtnum undirtóni, alveg yfir í eitthvað sem er þannig að þú finnur alveg að það er eitthvað hræðilegt að gerast að myndinni.“

Tónlist ýkir allar tilfinningar

Barði segist fá mikið út úr því að semja tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. „Málið er að þegar ég sem mína eigin poppmúsík þá sé ég oft fyrir mér sögur. Þegar maður er að gera texta eða lag, þá sé ég oft fyrir mér sögu og sé fyrir mér stemninguna. Og þarna lætur einhver mig hafa stemningu, og ég bý til tónlist inn í hana. Mér finnst það mjög skemmtilegt, þú getur verið með ástaratriði en með því að breyta músíkinni getur það breyst í hryllingsatriði. Tónlist býr til svo mikið af tilfinningum þó hún sé ósýnileg, það er svo gaman að vinna með það. Þú ert með eitthvað myndmál og eitthvað að gerast, en um leið og músíkin kemur þá er eins og hún ýki allar tilfinningarnar. Mér finnst voðalega gaman að vinna upphafslög, og svona stemningar þar sem músíkin fær gott pláss.“

Ítalski leikstjórinn Michele Civetta (1976) kemur úr auglýsingageiranum en hann hefur einnig gert tónlistarmyndbönd, meðal annars fyrir Ladytron, Lou Reed, Yoko Ono og Sean Lennon. Agony er hans fyrsta mynd í fullri lengd, en næsta kvikmynd hans er væntanleg í sumar. „Það sem skemmtilegt við myndina hvað hún lítur fallega út,“ segir Barði, „skemmtileg myndataka, skemmtileg stemning. Myndin er ekki að fá verðlaun fyrir handrit ársins, en stemningin er skemmtileg, og stemningin var inspírerandi fyrir mig að semja í hana.“

„Vanur tímabundinni einveru“

Lífið á tímum faraldurs hefur farið ágætlega með Barða, hann hefur að minnsta kosti náð að sinna sínu. „Kóvíd hefur ekki farið neitt illa með mig. Þegar ég hef verið að vinna einhverja plötu þá hef ég verið kannski einn í fjóra eða fimm mánuði bara að semja. Maður fer bara út í stúdíó, dag eftir dag eftir dag eftir dag, og hittir eiginlega engan. Þannig að maður er kannski vanur tímabundinni einveru.“

Ný plata með Bang Gang mögulega í farvatninu

Barði er nýbúinn að klára að hljóðblanda nýja plötu með hljómsveitinni Kælunni miklu sem kemur út von bráðar. Framundan er meiri kvikmyndatónlist, og mögulega ný plata með Bang Gang. „Og síðan langar mig bara að fara að semja nýja Bang Gang - plötu, það er það sem ég ætla að fara að dúlla mér í þegar ég hef tíma.“ Þeir Barði og Jean-Benoît Dunckel, sem hefur aðsetur í París, munu einnig halda áfram samstarfi sínu undir merkjum Starwalker. „Við eigum orðið tvö lög tilbúin sem við erum búnir að liggja á alveg í tvö þrjú ár. En síðan var ég alltaf á leiðinni út að hitta hann, og svo kom kóvíd, þannig að það varð til þess að við gátum ekki haldið áfram þar, í bili. Þetta er tímabundið ástand sem er vonandi að klárast.“ 

Rætt var við Barða Jóhannsson í Víðsjá.