Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Myndarlegir strókar standa upp af gosinu

Mynd: Þór Ægisson / RUV
Ummerki eldgossins í Geldingadölum sjást óvenjuvel í dag þökk sé mikilfengilegum gosmekki sem ber á þriðja kílómetra í loft upp. Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í morgunfréttum RÚV í morgun að veðuraðstæður ráði því helst hve stór og greinilegur mökkurinn er.

Eldgosið sást greinilega víða að í gærkvöld og nótt, frá höfuðborgarsvæðinu og víðar að af suðvesturhorninu. Hærri og meiri kvikustrókar stóðu þá upp úr virkasta gígnum en áður hafa sést. 

Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði segir í samtali við fréttastofu að kvikustrókar geti náð allt að 250 metra hæð, meiri sveifla sé komin í virkni þeirra. Hann segir stórar kvikuslettur þeytast yfir hraunið í suðvesturhlíðinni.

Nú eru uppi grunsemdir um að ný sprunga sé að opnast við gosstöðvarnar, en þó greindi náttúruvísindamenn á um hvort svo væri eða hvort glóandi hraunið hefði náð að kveikja sinuelda.

Svo virðist þó ekki vera og því bíða náttúruvársérfræðingar átekta og fylgjast náið með framvindunni. 

Þór Ægisson kvikmyndatökumaður RÚV tók meðfylgjandi myndskeið af svölum útvarpshússins nú í morgun þar sem sjá má hve mikilfenglegir gosstrókarnir og gosmökkurinn eru.