Mótmælendur ruddust inn á Old Trafford

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter

Mótmælendur ruddust inn á Old Trafford

02.05.2021 - 13:48
Mikil mótmæli voru við heimavöll Manchester United á Englandi fyrr í dag. Mótmælendur ruddust inn á heimavöll félagsins, Old Trafford, til að mótmæla eignarhaldi Glazer-fjölskyldunnar á félaginu. Leik Manchester og Liverpool sem átti að vera í dag hefur verið frestað.

Uppfært kl. 15:30:
Leiknum hefur verið frestað um óákveðinn tíma af öryggisástæðum. Ekki er ljóst klukkan hvað verður flautað til leiks.

Glazer-fjölskyldan hefur aldrei verið vinsæl meðal stuðningsmanna félagsins. Eftir að félagið lýsti vilja sínum til að taka þátt í Ofurdeild Evrópu keyrði um þverbak.

Manchester á að spila gegn Liverpool á Old Trafford kl. 15:30 í dag en ef ekki næst að koma böndum á mótmælin gæti farið svo að leiknum verði frestað.

Mótmæli hafa verið við heimavelli fleiri liða sem ætluðu að vera með í Ofurdeildinni en þau hafa hingað til farið friðsamlega fram.

Enski landsliðsmaðurinn fyrrverandi, Stan Collymore, sem nú starfar sem sérfræðingur fjölmiðla, er á Old Trafford og birti eftirfarandi myndskeið fyrir skömmu.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir líka frá því að mótmælendur hafi látið á sér kræla við hótelið þar sem leikmenn Manchester United dvelja fram að leik. BBC segir ennfremur að mótmælendur hafi yfirgefið völlinn. Einhverjar smávægilegar skemmdir voru unnar á vellinum en búist er við að leikur Manchester United og Liverpool fari fram á eftir.

Umfjöllun BBC um málið má finna hér.