Miklar annir á Sorpu í vorblíðunni í dag

02.05.2021 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd: Berta Ósk Stefánsdóttir
Miklar bílaraðir hafa myndast við endurvinnslustöðvar Sorpu í dag, enda frídagur og blíðviðri sem eykur alltaf aðsóknina að sögn upplýsingafulltrúa og rekstrastjóra endurvinnslustöðva Sorpu.

Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu bendir á að auk þess hafi verið lokað í gær 1. maí. Það sé ekki ólíklegt að þetta fylgist að ásamt því sem helgar séu annasamari en virkir dagar.

Bílaröðin við endurvinnstöðina í Ánanaustum náði út af henni, meðfram bensínstöð Olís, út í götuna, gegnum hringtorg og aðeins inn á Fiskislóð þegar meðfylgjandi ljósmynd var tekin. 

Gunnar Dofri segir aðsóknina mjög jákvæða því Sorpa vilji að fólk skili úrgangi í réttan farveg. Annirnar séu vonandi til marks um hvað fólk sé duglegt að flokka og henda. Þó sé ekki óskastaða að biðraðirnar nái út á umferðagötur.

Hann segir að auðvitað sé leiðinlegt að fólk þurfi að bíða, en við alla iðju sem margir sæki myndist því miður raðir. Hann vill gefa viðskiptavinum það hollráð að vera búnir að flokka vel áður komið er inn á endurvinnslustöðina. Það stytti biðina þgar fyrir liggi í hvaða gáma úrgangurinn á að fara. 

Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva segir í samtali við fréttastofu að mjög fjörugt sé á helgi- og frídögum, frá páskum og fram í miðjan júní, sérstaklega ef veðrið er gott.

Takmarkanir séu inn á svæðin vegna faraldursins og þvi myndist raðir en Guðmundur segir fólk yfirleitt vera mjög þolinmótt.

„Vorverkin eru komin í gang hjá fólki og við að koma út úr ástandi sem hefur skilað þeirri staðreynd að aldrei hefur komið jafnmikið inn á stöðvarnar og undanfarið ár.“

Fólk sé í framkvæmdum og tiltektum af ýmsu tagi ásamt því sem áhuginn og skilningur fólks á flokkun úrgangs sé að aukast sem fagnað er. „Við erum í þessu saman,“ segir Guðmundur.