Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Listrænt, lýðræðislegt og skipulagslegt afrek

Mynd: Castro & Ólafsson / Töfrafundur

Listrænt, lýðræðislegt og skipulagslegt afrek

02.05.2021 - 11:00

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um sýningu spænsk-íslenska listamannatvíeykisins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar Töfrafundur – áratug síðar. Sýningin fjallar um stjórnarskrármálið svokallaða og hreyfir við áhorfandanum með því að færa flókin pólitísk álitamál yfir á hið listræna svið og út til almennings.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Árið 2005 sýningarstýrði franski heimspekingurinn Bruno Latour sýningunni „Making Things Public: Atmospheres of Democracy“ í Listamiðstöðinni í Karlsruhe, sem útleggja mætti á íslensku „Að koma hlutum á framfæri: andrúmsloft lýðræðis“. Sýningin var sett fram sem einskonar svar við bitleysi stjórnmálanna, og í henni voru skoðaðar leiðir til að endurvekja pólitísk álitamál með því að færa þau út af sviði stjórnmálanna inn á önnur svið, eins og svið lista eða vísinda. Ein af spurningunum sem sýningin vakti snerist um hvernig listin gæti tekist á við framsetningu á annan hátt en stjórnmálin gera, þ.e. að færa eitthvað fram til lýðræðislegrar umræðu, sem í tilfelli stjórnamálanna fer yfirleitt fram í formi tungumálsins, á umræðuvettvangi eins og fulltrúaþingi. En hvað ef verkfæri stjórnamálanna þrýtur? Hvaða aðrar leiðir má nota til að koma hlutum á framfæri, hreyfa við fólki?

Það eru spurningar af þessu tagi sem brenna á spænsk-íslenska listamannatvíeykinu Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni, sem nú sýna afrakstur áralangrar rannsóknarvinnu sinnar á stjórnarskrármálinu svokallaða í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Segja má að verkefnið í heild teljist til tíðinda í íslenskri myndlistarsenu og sé í raun í algjörum sérflokki, þar sem alla jafna fer ekki mikið fyrir aðgerðasinnaðri list hér á landi, list sem unnin er með skýrum ásetningi til að koma á félagslegum, pólitískum, efnahagslegum eða umhverfislegum breytingum með listrænu inngripi.

Sýningin, sem ber yfirskriftina Töfrafundur – áratug síðar, er ekki einöngu hlaðin pólitískri merkingu heldur hvetur hún beinlínis til pólitískrar þátttöku almennings og ýtir undir atbeini okkar sem ekki  störfum á stjórnmálasviðinu, um málefni er varða velferð og réttindi okkar sjálfra sem og landsins sem við byggjum. Sýningin er listræn skrásetning á afar merkilegu tímabili í lýðveldissögu Íslands, sem hófst með Þjóðfundinum árið 2008 og er enn opið í hinn endann. Þjóðfundurinn var haldinn að kröfu almennings í kjölfar hins pólitíska og efnahagslega hruns, í því markmiði að stuðla að lýðræðislegra og réttlátara samfélagi, atburður sem vakti heimsathygli vegna þess fordæmalausa lýðræðislega ferlis sem þar var fylgt. Niðurstaða fundarins varð síðan uppistaðan í tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá árið 2011, og þann 20. október 2012 kaus þjóðin með tillögunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi vilji þjóðarinnar hefur hinsvegar aldrei verið lögfestur af Alþingi. Síðan þá hefur málið lognaðist út af og næstum því horfið af pólitíska sviðinu, þótt veikar tilraunir hafi verið gerðar til að endurvekja það í ræðustól Alþingis af og til.

Nú hafa Libia og Ólafur endurvakið þetta klúðurslega mál og skipulagt einskonar björgunaraðgerð með því að standa fyrir umfangsmiklum þátttökugjörningi, sem fluttur var í Listasafni Reykjavíkur í október síðastliðnum undir yfirskriftinni  Í leit að töfrum – tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Íslands.

Gjörningurinn, sem sennilega ætti fremur að kalla ritúal ef dæma á af kynnginni og kraftinum í hinum listræna viðburði sem þar fór fram, fól í sér flutning á öllum 114 greinum nýju stjórnarskrártillögunnar, og fór fram innan stórri í innsetningu Libiu og Ólafs í porti listasafnsins, að viðstöddum áhorfendum. Gjörninginn unnu þau í samstarfi við Töfrateymið, teygjanlegjan hóp um 150 tónlistarflytjenda, tónskálda, aðgerðasinna, grasrótarsamtaka, menningarframleiðenda, tæknimanna, handverksfólks, almennra borgara, fólks með ólíka færni og aðra minnihlutahópa. Með þessari fjölradda samsetningu má segja að gjörningurinn endurspegli þann fjölbreytileika og breidd sem ríkir í samfélaginu og geri tilraun til að skapa vettvang án aðgreiningar, vettvang inngildingar þar sem pláss er fyrir sameiginlega upplifun ólíkra hópa gegnum samruna tónlistar, myndlistar og aktívisma. Þarna voru greinar stjórnarskrárinnar fluttar í ólínulegri framvindu, í flæði ólíkra flytjenda endanna á milli í rými safnsins, þar sem ekkert svið var að finna, enga miðju, og ekkert stigveldi í tónlistarstefnum eða framsetningarformum. Á pöllunum fyrir ofan stóðu áhorfendur og fylgdust með, líkt og á Alþingi. Gjörningurinn, sem var vandlega skrásettur með hljóði og mynd, myndar svo hryggjarstykkið á sýningunni sem nú er uppi í Hafnarborg, og er sýnt sem 5 klukkustunda langt vídeóverk í miðjum sýningarsalnum á efri hæð, mitt inn í umlykjandi innsetningu listamannanna. Inn í verkið er klippt gamalt fréttaefni frá búsáhaldabyltingunni og svipmyndir af Þjóðfundinum, sem býr til skýrar tilvísanir í fjöldahreyfingar og möguleika almennings til atbeina, möguleika fólks til að beita sér.

Mynd 2: Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland í Listasafni Reykjavíkur. Ljósmynd: Owen Fiene.
 Mynd: Owen Fiene - Í leit að töfrum
Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland í Listasafni Reykjavíkur.

Libia og Ólafur nota hér vettvang safnsins til að færa hluti af stjórnmálasviðinu yfir á svið lista og menningar, í tilraun til að hreyfa við flóknu semfélagsmáli sem virðist vera komið í pólitískt þrot. Veggir safnsins, gólf og rjáfur eru fóðruð með flennistórum borðum, fánum, áletruðum viskustykkjum, mótmælaspjöldum, upprunalegum útgáfum af stjórnarskránni, pottum og pönnum, vinnuplöggum, skissum og excel-skjölum. Með fagurfræðilegum tilvísunum í götulist, veggjalist og femínska list, og með því að umbreyta safninu í einskonar risastórt veggteppi sem saga stjórnarskrárinnar er vefuð inn í, koma þau hlutum á framfæri og skapa andrúmsloft lýðræðis. Gott dæmi um þetta eru grænu miðarnir sem þátttakendur Þjóðfundarins skrifuðu hugmyndir sínar á um framtíðarsamfélag, sem listamennirnir hafa nú fært úr arkívi Þjóðskjalasafnsins og sett fram í formi stórra græna fána sem þau hafa handmálað handskrift viðkomandi á í nákvæmri eftirmynd.  

En hvað gerist þegar listsnauður texti er fluttur á skapandi hátt, þegar dauður hlutur er færður inn á hið dýnamíska svið menningarinnar? Þegar heil stjórnarskrá er sett fram með formerkjum listarinnar? Það er hér sem töfrar þessa verkefnis koma fram, þegar fólk kemur saman í söng og gerir tilraunir, skapar saman vettvang til tjáningar á grundvallaratriðum samfélagsins, enda er tónlist eitt sterkasta sameiningaraflið sem mannleg samfélög búa yfir. Og í samhengi við myndlistina og andrúmsloft aðgerðanna verður verkið að samfélagslegu hreyfiafli, sem vonandi hreyfir ekki bara við gestum Hafnarborgar, heldur einnig þeim sem starfa á stjórnamálasviðinu og fara með löggjafarvaldið.

Sem alltumlykjandi rými virkjar sýningin líkamann, skynfærin, tilfinningarnar og hugsunina til að takast á við brýnar spurningar sem snúast um flókin málefni eins og lýðræði, borgaraleg réttindi, þjóðernislega sjálfsmynd og sjálfstæði. Libia og Ólafur bjóða okkur hér að takast á við þessar spurningar með verkfærum listarinnar í krafti þeirra breiddar sem þau hafa náð að skapa í verkinu. Sjálf eru þau í margföldum hlutverkum samtímins, þau taka frumkvæðið, leggja fram hugmyndina, meðframleiða hana, eru leikstjórar hennar og lóðsarar, og búa til vettvang til tjáningar fyrir almenning. Fyrir það hafa þau hlotið Myndlistarverðlaun Íslands í ár, enda er hér á ferðinni  skipulagslegt, listrænt og lýðræðislegt afrek, sem allir ættu að gefa sér tíma til að upplifa.